Byrgjum ekki ágreininginn inni

Steingrímur J. Sigfússon var gestur Sigmundar Ernis í 21 í gærkvöld:

Byrgjum ekki ágreininginn inni

„Við höfum auðvitað tekist á við svo krefjandi verkefni og krefjandi aðstæður. Það var náttúrulega engin smá ákvörðun að stinga sér út í köldu laugina 2009 og fara í þau svakalegu viðfangsefni sem þá biðu. Einhver annar flokkur hefði kannski bara hugsað um sjálfan sig og sagt: „Heyrðu eigum við ekki bara að standa á hliðarlínunni og bíða átekta og láta aðra engjast og svo græðum við bara í næstu kosningum.“ Við gerðum það ekki, það var skyldan sem kallaði okkur til verka. Auðvitað tók það í og var flokknum að mörgu leyti erfitt,“ segir Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og fyrrverandi formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Steingrímur var gestur Sigmundar Ernis í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld, þar sem hann fór um víðan völl í hressilega pólitísku samtali í tilefni af 20 ára afmæli flokksins.

Hann ræddi meðal annars hvernig ágreiningur innan flokksins hefur alltaf verið uppi á borðum. „Ég held að það sé alveg rétt hjá Katrínu, eins og yfirleitt er alltaf allt rétt hjá henni, að við höfum aldrei verið feimin við að ræða þetta. Það hefur verið gert t.d. á okkar fundum, þar sem fjölmiðlar fá alveg að sitja og fylgjast með. Ég held við skerum okkur talsvert úr öðrum flokkum hvað það varðar að á okkar landsfundum og flokksráðsfundum, þá fara fram miklar umræður um þessa hluti. Við erum ekkert að byrgja það inni.“

Steingrímur segir mikilvægt að taka ekki pólitískum ágreiningi persónulega. „Ég hef reynt að nálgast það alltaf þannig að þó svo að leiðir skilji að einhverju leyti pólitískt þá eigi það ekki að þurfa koma niður á persónulegri vináttu og að manni þurfi ekki að vera illa við neinn þó þeir verði manni ósammála, ef það er málefnalegt.“

Aðspurður segist hann ekki beinlínis geta sagst hafa tapað vinum en að auðvitað hafi samskipti við ýmsa minnkað verulega. „Ég reyni að rækta samband jafnvel við félaga sem eru núna í framboðum fyrir aðra flokka.“

Nýjast