Búseturéttur býflugna

Aðvörun hefur verið gefin út á alþjóðavísu að við sem tegund þurfum að kasta verndarvæng yfir aðra mun minni en merkilegri tegund, býfluguna. 

Á íslandi er talið að um 4 býflugutegundir hafi fasta búsetu. Algengustu tegundirnar eru Móhumla, Garðhumla, Húshumla og svo hefur Rauðhumla verið að gera sig heimakæra síðan 2008. 

Þó við íslendingar eigum eingöngu 4 býflugnategundir þá er talið að um 20.000 aðrar tegundir séu flögrandi um hnöttinn. 

Starf býflugunnar er fljótt á litið ekkert merkilegt. Fljúga á milli blóma að drekka blómavökvann sem þær fara svo með heim í búið sitt og framleiða hunang. Hlutverk býflugunnar er þó mun stærra og merkilegra en það. Talið er að býflugur sjái um frjóvgun einn þriðja allrar matvælaframleiðslu á heimsvísu. Hugmynd okkar um hlutverk býflugunnar stækkaði ögn við þá staðreynd. Þegar býflugan lendir í einu blómi þá festast frjókorn þessa blóms á fótum eða búki býflugunnar og berst til annara blóma af sömu tegund og frjóvgast. Þetta verður til þess að plöntur ná að lifa af og sinna sínum skyldum fyrir vistsvæði sitt. 

\"\"

Vegna notkunnar á sterkum eiturefnum og genabreyttum matvælum hafa margar tegundir býflugna verið að hörfa hratt (einnig vegna hnattrænar hlýnunnar). Það hratt að viðvörunn hefur verið send út á heimsvísu að við sem tegund verðum að hugsa um notkun okkar á þessum efnum og hvaða stefnu við ætlum að taka í þessum málum. 

Hvað getum við gert sem einstaklingar til að leggja hönd á plóg í viðahaldi og verndun þessara litlu vinnuþjarka? 

Til dæmis má huga betur að því hvernig við göngum frá gildrum fyrir geitunga. Búa til lítil afmörkuð svæði þar sem t.d. fífillinn fær að vera í friði. Setja upp smá býflugnaböð, líkt og fuglaböð, þar sem býflugan getur lent og fengið sér sopa. Ef þið sjáið þreytta býflugu þá takið hana varlega upp og gefið henni sykurvatn (volgu vatni og sykri hrært saman). Að gróðursetja býfluguvænar plöntur í görðum okkar eða á gluggasyllum. Sem dæmi eru timían, salvía, sólblóm, lofnarblóm (lavender), valmúi og blágresi frábærir kostir fyrir býfluguna að nýta. Einnig eru sum þessara blóm nytsamleg fyrir okkur. 

\"\"

Það er ekki hægt að neita fyrir að við stöndum frammi fyrir miklum breytingum á heimsvísu, fólksfjölgun, veðrabreytingar og nýting á landsvæðum til manneldis og þurfum við sem einstaklingar að vera reiðubúnir að standa vörð um það viðkvæma vistkerfi sem við tilheyrum. Það er margt smátt sem spilar stærra hlutverk í okkar nánasta umhverfi sem við gerum okkkur kannski ekki grein fyrir og ef það verður mikið rask þá getur það haft grafalvarleg áhrif á afkomu okkar mannana. Byrjum á því að hjálpa okkar nánasta umhverfi og tryggjum afkomu þeirra sem geta ekki bjargað sér sjálf gagnvart þeim breytingum sem við stöndum frammi fyrir.