Brúðkaupið að hefjast í windsor kastala

Gestir eru farnir að streyma til brúðkaupsathafnarinnar í Windsor kastala, þar sem Prins Harry og Meghan Markle verða gefin saman. Umgjörðin verður ekki öllu glæsilegri. Meðal brúðkaupsgesta, sem eru 600 talsins, eru Ophra Winfrey, George og Amal Clooney, David og Victoria Becham, tennisstjarnan Serena Williams, þáttastjórnandinn James Corden og Elton John.

Auk þess var 1.200 almennum gestum boðið á lóð kastalans, fólki sem hefur starfað að mannúðar- og góðgerðarmálum. Theresa May, forsætisráðherra verður ekki viðstödd, enda athöfnin ekki opinber stjórnarathöfn. Elísabet Bretlandsdrottning mætir síðust gesta, ásamt brúðhjónunum. Karl Bretaprins leiðir Meghan Markle að altarinu, en faðir hennar komst ekki frá Bandaríkjunum vegna veikinda. Harry mætir með svaramanni sínum, sem er William prins, bróðir hans.

Þegar Meghan og Doria Ragland móðir hennar litu yfir undirbúninginn í gær fannst þeim aðeins vanta upp á blómaskreytingar, svo bætt var snarlega úr því.

Sjálf athöfnin hefst klukkan 12 á hádegi að staðartíma (11 ísl. tíma) í kapellu heilags Georgs í Windsor-kastala. Það er erkibiskupinn af Kantaaraborg, Justin Welby, sem gefur brúðhjónin saman, en meðal tónlistaratriða er kórsöngur á lagi Ben E. Kings, Stand By Me. 

Myndin sýnir Ophru Winfrey mæta í bleikum kjól. 

Veðrið er eins og best verður á kosið, 17 stiga hiti og glaðasólskin.

Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu athafnarinnar á nokkrum sjónvarpsstöðvum, t.d. BBC og CNN.

Bein útsending CNN 

Bein útsending BBC