Bræður takast á – Gústaf: „Eigið eftir að fá eftirminnilega á lúðurinn“

Bræður takast á – Gústaf: „Eigið eftir að fá eftirminnilega á lúðurinn“

Orkupakki 3 virðist ekki aðeins skipta þjóðinni í tvær fylkingar. Bræðurnir Gústaf og Brynjar Níelssynir eru með öllu ósammála hvort eigi að samþykkja orkupakkann. Frá þessu er greint á DV. Brynjar hefur lýst yfir að hann sé fylgjandi þriðja orkupakkanum og hefur Gústaf nú lýst yfir að þetta muni koma Brynjari og Sjálfstæðisflokknum í koll.

Fyrr í vikunni sagði Brynjar að honum þætti óskiljanlegt að vilja hafna þriðja orkupakkanum. Brynjar sagði í þræði á samskiptamiðlum:

„Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni og mér gengur ekkert annað til en að gæta hagsmuna okkar, annars vegar þeirra sem felast í EES samstarfinu og hins vegar að tryggja um leið yfirráð okkar yfir orkuauðlindinni, hvernig eignarhaldi okkar er háttað og hvort við tökum þátt í innri markaði með sölu á orku til Evrópu í gegnum sæstreng.“

Brynjar bætti við að hann bæri tilfinningar til grasrótarinnar enn vildi ekki fylgja henni í blindni. Sagði Brynjar á öðrum stað að þó margir væru ósammála honum í þessu umdeilda máli tæki hann alltaf hagsmuni þjóðarinnar fram yfir allt annað. Þá tók Gústaf til máls, ósáttur við ákvörðun bróður síns.

„Brynjar Níelsson það er alveg augljóst að í þessu máli fara ekki saman hagsmunir flokksforystu og grasrótar flokksins og hvað þá hagsmunir þjóðarinnar. Þið sporgöngumenn Brusselvaldsins eigið eftir að fá eftirminnilega á lúðurinn í næstu kosningum og höggið verður slíkt að það er bara ekkert víst að þið rísið á fætur aftur.“

Þá segir Brynjar um frétt DV, um „deilur þeirra bræðra:

„Þetta teljast nú ekki harðar deilur í minni fjölskyldu, kæru vinir á Dv. Lengi var hart deilt um hver okkar bræðranna væri tökubarn. Einnig var oft deilt um bestu bitana á matarborðinu og hver ætti að sinna hverju starfi á heimilinu. Þetta var á þeim tíma þegar ekki þótti tiltökumál að leysa úr deilum með fýsiskum hætti. Elsta systir okkar fór að heiman mjög ung og má segja að hún hafi bjargað sér á flótta. Eins og menn geta rétt ímyndað sér átti móðir okkar ekki sjö dagana sæla og sagði við okkur reglulega að hún myndi enda á Kleppi ef við bættum ekki hegðun okkar. Það sló á mestu lætin tímabundið. Þeir væru margir sérfræðingarnir í kringum okkur bræðurna værum við börn í dag. Að minnsta kosti þann elsta okkar.“

Nýjast