Borgarlína klýfur Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi

Borgarlína klýfur Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi

Klofningur er meðal Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi vegna Borgarlínu, en fyrirhugað er að Seltjarnesbær leggi 16 milljónir í verkefnið á næstu tveimur árum. Endanleg ákvörðun um þátttöku sveitarfélagsins í uppbyggingu Borgarlínu verður tekin á bæjarstjórnarfundi í dag. Búist er við að Seltjarnarnesbær samþykki að styðja við verkefnið.

Fréttablaðið greinir frá því að Magnús Örn Guðmundsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs, hafi lagt fram bókun gegn aðkomu Seltjarnarnesbæjar að verkefninu.

Sjálfstæðisfélag Seltirninga birti sömuleiðis í dag bókun á Facebook-síðu sinni þar sem félagið kallar eftir því að fulltrúar flokksins skrifi ekki undir samninga á fundinum í dag, þar sem samningar um Borgarlínu séu á skjön við stefnuskrá flokksins. Í bókuninni segir einnig að ákvörðun um þátttöku sveitarfélagsins í verkefninu beri vott um ábyrgðarleysi gagnvart skattfé.

Skiptar skoðanir eru um málið innan Sjálfstæðisflokksins. Til marks um það segir Sigrún Edda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Fréttablaðið að hún sé fylgjandi málinu og að hún muni kjósa með undirritun, alveg óháð bókun Sjálfstæðisfélags Seltirninga, sem hún sagðist þó reyndar ekki hafa séð ennþá.

Kristján Hilmir Baldursson, formaður Sjálfstæðisfélags Seltirninga, segir í samtali við Fréttablaðið að hann viti til þess að skiptar skoðanir séu meðal fulltrúa flokksins um málið.

Meirihluti fyrir málinu

Fyrirséð er að Magnús Örn muni kjósa gegn undirritun en ekki er vitað hver afstaða Ásgerðar Halldórsdóttur bæjarstjóra og Bjarna Torfa Álfþórssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, er. Svo virðist þó sem afstaða þeirra tveggja komi til með að gilda einu í atkvæðagreiðslunni, þar sem Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar, staðfesti í samtali við Fréttablaðið að hann ásamt bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar, Sigurþóru Bergsdóttur og Guðmundi Ara Sigurjónssyni muni kjósa með málinu í dag.

Bæjarfulltrúar Seltjarnarnesbæjar eru alls sjö með bæjarstjóra. Með atkvæði Sigrúnar Eddu er því meirihluti fyrir stuðningi sveitarfélagsins við uppbyggingu Borgarlínu.

Nýjast