Boðið upp á nám til stúdentsprófs í tölvuleikjagerð – færri komust að en vildu

Í gær fór fram fyrsta skólasetning nýrrar námsbrautar Menntaskólans á Ásbrú að viðstaddri Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Þar komu saman nemendur í fyrsta árgangi tölvuleikjagerðarbrautar skólans. Um nýbreytni er að ræða að boðið sé upp á slíkt nám á framhaldsskólastigi hér á landi. Alls hefja 44 nemendur námið nú og komust færri að en vildu, en um 100 sóttu um.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

„Tilurð þessarar nýju brautar er gott dæmi um árangursríkt samstarf stjórnvalda, menntakerfisins og atvinnulífsins og vil ég þakka Keili, Samtökum iðnaðarins, Samtökum leikjaframleiðanda og Samtökum verslunar og þjónustu fyrir árangursríka samvinnu við það að koma brautinni á laggirnar. Með þeirri ákvörðun að veita fjármagni til þessa verkefnis standa vonir til þess að með auknu námsframboði á framhaldsskólastigi finni fleiri nemendur nám við hæfi að loknum grunnskóla. Það er fátt eins nauðsynlegt fyrir okkur sem samfélag en að hver og einn fái notið sín í því sem hann tekur sér fyrir hendur,“ segir Lilja. 

Námið byggir á kjarna- og valfögum sem einskorðast ekki aðeins við forritun og taka til fjölbreyttra þátta skapandi starfa tölvuleikjagerðarfólks, til dæmis hönnunar, tónlistar, hljóðupptakna, verkefnastjórnunar og heimspeki. Þá er starfsnám og verkefna- og hópavinna mikilvægur hluti námsins.