Boðar erindi vísindakirkjunnar

Greint er frá því í frétt DV að maður á Borgarfirði eystra gangi í hús og boði erindi Vísindakirkjunnar.  Í frétt DV er fjallað um hve umdeild kirkjudeildin er:
 
Vísindakirkjan hefur verið eitt af umdeildustu trúfélögum heims undanfarna áratugi og í mörgum löndum hefur hún ekki heimild til að starfa sem slíkt. Telja margir að um hreinan heilaþvott og fjárplógsstarfsemi sé að ræða, þaulskipulagt af æðstu mönnum kirkjunnar.
 
Í DV segir enn fremur: Lítið hefur farið fyrir Vísindakirkjunni á Íslandi undanfarin ár. Nú kann það að vera að breytast því íbúar á Borgarfirði eystra urðu varir við dularfullan mann sem reyndi að selja þeim kennisetningar kirkjunnar.
 
„Ég var að vinna og mátti lítið vera að því að tala við hann þannig að ég beit hann af mér með þumbaraskap og almennri ókurteisi,“ segir Björgvin Ólafsson frá Borgarfirði eystra og hlær. „Maðurinn kynnti sig ekki en spurði mig eitthvað á þessa leið: Má ég tala við þig af heilum hug? En ég afþakkaði það. Þá reyndi hann að kynna mér þessa bók, Dianetics, en hann kynnti sig ekki sem sendiboða Vísindakirkjunnar.“
 
Maðurinn var Íslendingur, á milli fimmtugs og sextugs og einn á ferð. Gekk hann um þorpið, bankaði upp á hjá fólki og ræddi við íbúa um þessa bók, Dianetics. Suma stoppaði hann úti á götu til að ræða um þetta. Eftir því sem DV kemst næst gekk trúboðið ekki sérlega vel í þorpinu sem telur aðeins um eitt hundrað manns.
 
Frægar Hollywood-stjörnur á borð við Tom Cruise, John Travolta og Juliette Lewis eru iðkandi meðlimir kirkjunnar.