Bjarni skaut fast á þorgerði katrínu

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skaut á bæði Bjarta framtíð og Viðreisn þegar hann setti landsfund Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöllinni síðdegis í gær og gagnrýndi hvernig síðarnefndi flokkurinn brást við vantrauststillögu á dómsmálaráðherra.

Þetta er fyrsti landsfundur Sjálfstæðisflokksins síðan í október 2015 og síðan þá hefur mikið gerst. Tvisvar sinnum hefur verið kosið til Alþingis og Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í öllum þremur ríkisstjórnum síðan þá, eins og fram kemur í samantekt ruv.is um ræðu formannsins.  

Bjarni fór yfir stjórnmálasviðið í ávarpi sínu. Hann sagði að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafa farið ágætlega af stað en hafi samt verið höktandi.  „Allt endaði þetta með því að sá flokkur ákvað að standa með sjálfum sér, eins og það er kallað, og slíta stjórnarsamstarfinu. Þarna var auðvitað um að ræða flokkinn sem kenndi sig við bjarta framtíð, en á sér núna enga framtíð. “

Bjarni rifjaði upp að hann hefði ætlað að hlaupa maraþon um svipað leyti og upp úr stjórnarsamstarfinu slitnaði. Hann hefði hins vegar meiðst en í bjartsýniskasti ákveðið að láta slag standa og mæta. Það hefði þó ekki staðið lengi því þetta hefði verið dagurinn sem Óttarr Proppé, þáverandi formaður Bjartrar framtíðar, hefði hringt í hann um miðnætti með skilaboðin. „Bjarni, þetta er búið.“

Hann sagði að myndun ríkisstjórnar VG og Framsóknarflokksins hefði á margan hátt verið söguleg. Nauðsynlegt hafi verið að brúa ágreining um þau mál sem þyrfti að vinna að til að missa ekki af því tækifæri til uppbyggingar sem íslenskt samfélag stæði frammi fyrir. Um þetta hafi VG, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn náð saman.

Hann sagði gott traust milli stjórnarflokkanna og mikill vilji til samstarf. „Til þess þarf styrk og reynslu sem er ekki öllum gefin,“ sagði Bjarni. „sérstaklega ekki smáflokkum sem eru að eigin mati aðallega í því að rugga bátnum en detta svo bara útbyrðis í öllum gusuganginum,“ en yfirskrift á landsfundi Viðreisnar um síðustu helgi var einmitt „Ruggum bátnum“.

Bjarni gerði líka vantrauststillöguna á Sigríði Andersen að umtalsefni og sagðist ekki vita hvort hann gæti sagt að það hefðu verið vonbrigði að sjá fyrrverandi samstarfsflokk og fyrrverandi flokksfélaga greiða atkvæði með henni „þar sem það er svo sem ekki við miklu að búast úr þeirri átt.“ Bjarni var þar greinilega að vísa til Viðreisnar og beindi orðum sínum að formanni flokksins, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem Bjarni taldi að hefði einu sinni sagt að með vantrauststillögunni væri „enn einu sinni vegið með ósanngjörnum hætti að kvenkyns ráðherra í ríkisstjórn.“

Það virtist bara ekki eiga við um Sigríði Andersen sem hefði staðið sig vel og ætti mikið inni fyrir stuðning meirihluta Alþingi. „Hún stendur sterkari eftir.“

En þetta var ekki eina skot Bjarna á Viðreisn og formann flokksins því þegar hann ræddi um stöðu sjávarútvegsins sagði hann að það væri eins og sumir forystumenn annarra stjórnmálaflokka áttuðu sig ekki alveg á þeirri stöðu sem nú væri upp komin.  „ En ég veit að enginn heilvita skipstjóri leikur sér að því að rugga bátnum bara til að sýna hvað hann er mikill karl í krapinu. Þennan leik leika nú samt sumir stjórnmálamenn til að reyna afla sér meiri vinsælda um stundarsakir.“ 

Sjálfstæðisflokkurinn tæki ekki þátt í slíkum skrípaleik því verkefnið framundan væri að tryggja enn frekar stöðugleika í rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs.  Töluverð ágjöf væri í sjávarútvegi um þessar mundir, margir stæðu höllum fæti og of há veiðigjöld hefðu haft mikið að segja. Þau væru í sífelldri endurskoðun og nú sérstaklega því finna þyrfti eðlilegt og sanngjarnt samhengi við afkomu greinarinnar hverju sinni.

Bjarni sagði öllu máli skipta að vel tækist að mennta þá kynslóð sem nú væri á skólaaldri. „Menntakerfið er besta tækið sem við eigum til að tryggja að börnin okkar búi við jöfn tækifæri þegar þau halda af stað út í lífið. Með góðum skólum getum við hjálpað öllum, lyft öllum þannig að öll börn séu í færum að nýta það sem í þeim býr.“

Bjarni var líka skýr um afstöðu flokksins til Evrópusambandsins. Flokkurinn hafnaði þeirri hugmynd að taka upp aðra mynt og hafnaði þeirri hugmynd að Ísland ætti að ganga í ESB til að taka upp evruna. Hann sagði umhverfismál vera í forgangi, sett hefðu verið metnaðarfull markmið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. „Við getum ekki setið með hendur í skauti þegar viðvörunarljósin blikka. Að meðaltali bráðnar ferkílómetri af Grænlandsjökli á dag.“

En Bjarni sló líka á létta strengi og sagði ýmislegt geta komið upp á hjá stjórnmálamönnum. „Þannig hafði það til dæmis alveg farið fram hjá mér, þegar við vorum að ákveða tímasetningu landsfundar, að þetta væri einmitt fermingarhelgin hennar Helgu Þóru minnar.“ Hann kvaðst í því ljósi setja allt sitt traust á fundarstjórann um að dagskráin stæðist á sunnudaginn „svo ég komist að minnsta kosti í veisluna.“