Bjarni: ástæða til að gera breytingar á lögum um kaup auðmanna á bújörðum

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra telur ástæðu til að gera breytingar á lögum um kaup auðmanna á bújörðum hér á landi. Breytingarnar gætu til dæmis snúið að reglum um kaup aðila utan EES-svæðisins og hvaða skilyrði slíkar fjárfestingar þurfi að uppfylla. Bjarni ræddi þessi mál í kvöldfréttum RÚV í gær.

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarin ár vegna kaupa breska auðkýfingsins James Ratcliffe á tugum jarða á Norðausturlandi. Ratcliffe er nú einn umsvifamesti landeigandi á Íslandi.

Í pistli Náttfara, „Eru erlendir stóreignamenn hættulegri jarðareigendur en íslenskir?“, sem birtist á Hringbraut þann 5. ágúst síðastliðinn, segir meðal annars um þessa umræðu:

„Þegar umræða um jarðakaup hófst fyrir nokkru vegna umsvifa bresks stóreignamanns í Vopnafirði og víðar á Norðausturlandi stukku ráðherrar til og sögðust ætla að leggja frumvörp fyrir Alþingi næsta vetur. Katrín Jakobsdóttir virtist koma af fjöllum og leit býsna kjánalega út með þessari yfirlýsingu.“

Náttfari veltir því fyrir sér hvort umrædd jarðakaup hafi komið Katrínu á óvart. „Bretinn hefur verið að kaupa upp flestar laxveiðijarðir í Vopnafirði á síðustu 5 til 10 árum eins og ítrekað hefur verið fjallað um í fjölmiðlum - og verið í fullum rétti til þess.“

Bjarni veltir því fyrir sér hvað það sé nákvæmlega sem fólk er að gagnrýna þegar jarðir eru keyptar hérlendis. „Þegar spurt er um eignakaup auðmanna þá má spyrja á móti hvort menn séu að tala um erlenda eða innlenda auðmenn. Til hvers eru menn í raun og veru að vísa? Eru menn að tala um eignasöfnun eða eru menn að tala um það þegar einstaka auðlindamiklum jörðum er kippt úr búrekstri?“

Hann segir mikilvægt að svara því fyrst hvert vandamálið nákvæmlega sé áður en ákveðið er til hvaða úrræða er gripið. Málaflokkurinn sé mikilvægur og þurfi að skoða vandlega.

Bjarni segist þó sjálfur hafa áhyggjur af skorti á yfirsýn. „Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég hef vissar áhyggjur af því að við höfum ekki góða yfirsýn. Ég hef áhyggjur af því ef við erum galopin fyrir mjög miklum fjárfestingum erlendra aðila utan EES-svæðisins sem geta komið hingað hindrunarlaust nánast. Nema við skýrum betur leikreglurnar.“

Náttfari áttar sig ekki alveg á þessum málflutningi og furðar sig á umræðunni. „Þeir hafa keypt hér jarðir í langan tíma án þess að stjórnvöld hafi brugðist við, nema þegar hinn kínverski Nubo vildi kaupa Grímsstaði á Fjöllum fyrir 7 eða 8 árum. Þar er um að ræða eina landmestu jörð Íslands.“

Náttfari bendir á að hægt hafi verið að stöðva Nubo því hann búi í Kína en ekki innan evrópska efnahagssvæðisins, þar sem óheimilt sé að hamla gegn kaupum þeirra sem búa innan ESB og EES. „Ekki verður séð að löglegt sé að hamla gegn fjárfestingum íbúa á evrópska efnahagssvæðinu og ESB hér á landi miðað við skuldbindingar okkar gagnvart EES-samningnum,“ segir hann.

Bjarni segir að það geti verið áhyggjuefni til lengri tíma að sóst sé eftir auðlindum og að það þurfi ekki að gerast í einum viðskiptum. „Ef við hugum ekki að því máli í tíma þá getur það verið þróun sem að gengur allt í einu einn góðan veðurdag of langt.“

Náttfari veltir því fyrir sér hver munurinn sé á íslenskum og erlendum jarðakaupendum. „Ef erlendir jarðakaupendur eru svona hættulegir, hefðu stjórnvöld þá ekki átt að vera búin að bregðast við fyrir mörgum árum og það áður en þeir keyptu upp heilu dalina víða um land?“

„En eru þessir aðilar vondir eða óheppilegir? Eru þeir t.d. eitthvað verri eða öðruvísi en Íslendingar sem hafa flutt lögheimili sín til útlanda en eiga jarðir hér á landi. Gott dæmi um það er Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, sem hefur flutt lögheimili sitt til Sviss en á kostajarðir á Snæfellsnesi. Hver er munurinn? Ólafur er einungis nefndur sem dæmi um fjölda Íslendinga sem þannig er háttað um,“ segir Náttfari að lokum.