Ber æ meira á fúski í húsasmíði

Sá margreyndi fasteignasali sem Ingólfur Geir Gissuarson hjá Valhöll er segir að æ meira beri á fúski í húsasmíði hér á landi af því verktakar séu að hraða verki sínu um of.

Að þessu leyti sé ástand mála farið að minna helst til mikið á stöðuna á byggingarmarkaði fyrir hrun þegar æðibunugangurinn á húsnæðismarkaði var hvað mestur. Og trassaskapurinn blasir við í öllum myndum, að sögn Ingólfs Geirs, hvort heldur er í lögnum, gluggum, lofti og veggjum, en algengast sé að mygla fylgi ósköpunum þegar byggingarhraðinn verður meiri en smíðaefnin ráða við. 

Hann segir mikilvægt fyrir kaupendur að kynna sér sögu verktaka og ana ekki að neinu í þessum efnum, enda mikið í húfi - og margra missera og jafnvel ára bið í óvissu þar sem lögfræðin svari ekki endilega öllum spurningum.

Nánar um þetta í viðtali við Ingólf Geir í Heimilinu á Hringbraut sem er endursýnt í dag eftir frumsýningu gærkvöldsins, en þáttinn má einnig nálgast á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.