Báðu sam­herja um aðstoð til að blekkja veiði­heimildir út úr græn­lendingum - „reyna ná kvótum og goodwill af stjórnvöldum“

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, óskaði eftir leiðbeiningum um hvernig hægt væri að blekkja Grænlendinga til að fá kvóta og velvild í landinu. Fréttablaðið greinir frá þessu. Þetta kemur fram í tölvupóstsamskiptum á milli Gunnþórs, Aðalsteins Helgasonar, Jóhannesar Stefánssonar og ónefnds einstaklings hjá Samherja, sem hefur netfangið [email protected]. Umrædd samskipti áttu sér stað í apríl 2014, og er hluti skjala sem Wikileaks hefur birt.

„Sælir félagar. Þannig er mál með vexti að vinir okkar í Grænlandi, Henrik Leth, var að biðja mig að setja niður fyrir sig hvað þyrfti til í fjárfestingum, veiðum, vinnslu og hafnarmannvirkjum ef menn myndu vera setja upp fiskimjöls og uppsjávarverksmiðju í Ammasalik austurströnd Grænlands,“ skrifar Gunnþór. Henrik Leth er stjórnarformaður Polar Seafood sem mun vera stærsta fyrirtæki í einkaeigu á Grænlandi.

Þá spyr Gunnþór einnig í tölvupósti hvort Samherjamenn séu ekki með einhverja punkta um hvernig þeir eigi samskipti við yfirvöld í Namibíu.

„Hann er ekki að hugsa um að setja neitt upp, heldur eru einhverjir heimamenn í Grænlandi með einhverja með sér í því að reyna ná kvótum og goodwill af stjórnvöldum með því að þykjast vera fara byggja upp á Austur Grænlandi. Eigið þið ekki tilbúna einhverja svona punkta þó svo að þeir eigi við um Afríku?“

Samherjamenn voru snöggir að svara beiðni Gunnþórs.

„Það er kannski spurning um að taka frá Marokkó, hvað segirðu um það?“ spyr Jóhannes í svarskeyti og beinir þá spurningunni til áðurnefnds Sigga.

„Gunnþór, ertu að leitast eftir einhverju ýtarlegu eða bara í kynningarformi?“ spyr hann síðan stjórnanda Síldarvinnslunnar.

„Nei, bara punktum hvað þarf,“ svarar Gunnþór Ingvason.

Aðalsteinn Helgason var einn af lykilstarfsmönnum Samherja í á þriðja áratug þar til hann lét af störfum 2016, sama ár og Jóhannes Stefánsson, sem síðar varð uppljóstrari varðandi meinta mútustarfsemi Samherja í Namibíu. Jóhannes starfar nú með yfirvöldum í Namibíu sem eru að rannsaka málið. Þá hefur Jóhannes mætt í skýrslutöku hjá embætti héraðssaksóknara hér á landi.