Atvinnuleysi ekki meira í fimm ár

Atvinnuleysi ekki meira í fimm ár

Í apríl var skráð atvinnuleysi 3,7 prósent. Það jókst um hálft prósentustig milli mánaða og hefur ekki verið meira í fimm ár. Vinnumálastofnun segir áhrifa gjaldþrots WOW air gæta verulega í tölum aprílmánaðar. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu VMST um vinnumarkaðinn.

Í maí gerir VMST ráð fyrir að skráð atvinnuleysi muni dragast saman á ný vegna árstíðasveiflu. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði á bilinu 3,4-3,6 prósent í mánuðinum.

Í apríl voru um 6.800 manns á atvinnuleysisskrá, samanborið við tæpa 6.000 í mars. Atvinnulausum fjölgaði því um rúm 14 prósent milli mánaða.

Greint er frá því að 3.733 karlar og 3.070 konur hafi að jafnaði verið atvinnulaus í apríl. Þannig var 3,6 prósent atvinnuleysi meðal karla og 3,8 prósent meðal kvenna. Milli mánaða jókst atvinnuleysi um 0,4 prósent hjá körlum og 0,5 hjá konum.

Nýjast