Áslaug gagnrýnir klíkustjórnmál

\"Góður stuðningur í hefðbundnum prófkjörum hefur litla þýðingu, þegar leikreglum er breytt og uppstillingarvaldið sett í fárra hendur,\" skrifar Áslaug Friðriksdóttir, fráfarandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á fésbók sína í dag þar sem hún ávarpar stuðningsfólk sitt.

Og hún er sár, eftir að hafa verið sett til hliðar: \"Mér eru það vissulega vonbrigði að eiga ekki sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ég óskaði eftir að skipa 2. sæti listans, þrátt fyrir að vita að ég hefði ekki stuðning meirihluta kjörnefndar nema nýr leiðtogi styddi þá tillögu. Svo reyndist ekki vera og því fór sem fór,\" skrifar Áslaug.

Ég segist að sjálfsögðu ætla sitja út kjörtímabilið og vinna að málum eins og hún hafi gert hingað til með því að leggja áherslu á að einkaframtakið fái að blómstra til hagsbóta fyrir borgarbúa, með því að efla þjónustu, þar sem þarfir íbúanna eru í forgrunni og með því að standa á bremsunni gegn óráðsíu og vanhugsuðum hugmyndum meirihlutans.

\"Mér líst vel á nýju konurnar á framboðslistanum,\" skrifar Áslaug og kveðst hafa heyrt raunar að þær væru skoðanasystur mínar í mörgum málum: \"Vonandi munu þær fylgja skoðunum sínum eftir og kanna öll mál með opnum huga. Flokkurinn þarf ekki á því að halda að allir séu steyptir í sama mót.\"

Hún sendir tóninn: \"Á undanförnum mánuðum hefur verið reynt að tala niður fylgi flokksins í borginni. Stundum hefur mátt skilja af umræðunni og á staðhæfingum ýmissa vitringa að fylgi borgarstjórnarflokksins sé minna en fylgi flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum fyrir Alþingiskosningar. Þetta er ekki rétt og má minna á að í skoðanakönnun í ágúst mældist stuðningur við borgarstjórnarflokkinn 34%.\"

Færsla Áslaugar á fésbókinni endar með þessum orðum: \"Í komandi kosningabaráttu þurfa frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins að byggja ofan á þetta fylgi til að ná settu marki. Öll skilyrði fyrir góðum árangri eru til staðar. Ég óska þeim alls hins besta í þeirri baráttu.\"