Así segir að rangfærslur séu í fréttaflutningi af verðkönnun samtakanna

ASÍ hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna fjölmiðlaumfjöllunar í tengslum við verðkönnun sem ASÍ sendi frá sér miðvikudaginn 5. júní síðastliðinn. Segir ASÍ að það sé rangt, sem bæði Vísir og Fréttablaðið fullyrða, að Krónan sé með lægsta verðið í könnuninni. Enn fremur segir ASÍ að það komi hvergi fram að Krónan sé oftast með lægsta verðið. Þvert á móti standi skýrum stöfum í upphafi fréttarinnar, „Hæsta verðið var oftast í 10-11 en það lægsta oftast í Bónus.“

Það sem kann að hafa valdið misskilningi er að í fréttatilkynningunni var birt tafla með nokkrum verðdæmum, lítil vörukarfa með 15 vörum völdum af handahófi, þar sem Krónan var örlítið lægri en Bónus. Í verðkönnunin allri voru hins vegar bornar saman 106 vörutegundir og þar var Bónus oftast með lægsta verðið eins og áður segir.

Að lokum segir að ASÍ geti ekki borið ábyrgð á því ef fjölmiðlar, í þessu tilviki Vísir og Fréttablaðið, fari með rangt mál í sínum fréttaflutningi. Verðlagseftirlitið hvetur fjölmiðla til að lesa fréttatilkynningar þess vandlega og draga svo ályktanir. Verðlagseftirlit ASÍ segist standa við fréttina sem send var fjölmiðlum þann 5. júní síðastliðinn.