Ásgeir opnar sig um systurmissinn: „hvorki foreldrar mínir né systkini urðu söm á eftir“

Ásgeir Jónsson, nýskipaður seðlabankastjóri er í afar einlægu helgarviðtali við Fréttablaðið sem kom út í dag. Ásgeir tjáir sig um hrunið, hvar hann stendur í pólitík, þá staðreynd að hann stami, mistök í aðdraganda hrunsins og svo systurmissi sem tók mjög á alla fjölskylduna.

Ásgeir var um fertugt þegar hann tók þátt í að endurreisa Arion banka úr rústum Kaupþings. En fertugur sagði hann skilið við fjármálageirann. Þá hafði systir hans, Katrín Kolka veikst af krabbameini. Katrín átti eiginmann og ungan son. Katrín lést árið 2011 og var aðeins 28 ára gömul. Í viðtali Fréttablaðsins segir að það hafi tekið mjög á Ásgeir að rifja upp þennan erfiða tíma. Ásgeir segir í viðtalinu:

„Það var alveg hræðilegt að sjá hvernig sjúkdómurinn tók allt frá þessari ungu, fallegu og hraustu konu. Sjónina, hreyfigetuna og síðan lífið sjálft.“

Þá bætir Ásgeir við:

„Þetta var mikið og fyrirvaralaust áfall sem tók á alla fjölskylduna. Katrín hafði alltaf verið mjög hraust og fór betur með sig en flestir aðrir. Hvorki foreldrar mínir né systkini urðu söm á eftir og við höfum haldið betur saman eftir þetta. Þú ferð að skilja betur hvað skiptir máli í lífinu, eftir svona missi.“

Í minningargrein í Morgunblaðinu skrifar Ásgeir:

„Já, hún Katrín litla systir mín hlaut grimm örlög. Og ég vikna þegar ég hugsa um hvernig draumar þessarar ungu stúlku voru slökktir. En mér er nú samt efst í huga þakklæti fyrir hana, fremur en reiði fyrir að hafa misst hana frá mér. Hennar líf var hamingja, ekki harmleikur. Það er ekki aðeins hún hafi sjálf verið hamingjusöm þau ár sem henni voru gefin, heldur stafaði hamingju af henni fram á síðasta dag,“ skrifaði Ásgeir og sagði á öðrum stað:

„Þannig hættir okkur til þess að taka lífið sem eitthvað fast og jafnvel hversdagslegt. En lífið er gjöf sem við öll þurfum að skila aftur á einhverjum tímapunkti, við bara vitum ekki hvenær, og við getum aðeins verið þakklát fyrir þann tíma sem okkur er gefinn.“

„ ... hún Katrín tók þroska heillar mannsævi í veikindum sínum. Og ég dáist að henni þegar ég hugsa um með hve miklum styrk hún tók á móti örlögum sínum. Hún tók þá ákvörðun að gifta sig þegar hún horfði í mót dauða sínum og það brúðkaup er ein fallegasta stund sem ég hef lifað,“ sagði Ásgeir og bætti við: „Einum og hálfum sólarhring síðar kvaddi hún með systkini sín og foreldra sitjandi í kringum sæng sína sem er ein áhrifamesta stund er ég hef lifað. Undir lokin hafði litla systir mín snúið hlutverkum okkar við og leitt mig við hönd sér og kynnt mig fyrir lífinu á nýjan leik. Guð blessi Katrínu, litlu systur mína.“

Þá kemur fram í viðtalinu í Fréttablaðinu að Ásgeir hafi lagt höfuðáherslu á að styrkja rétt barna sem missa foreldri. Þá segir Ásgeir að stórfjölskyldan hafi haldið góðu sambandi við son Katrínar og eru hann og sonur Ásgeirs mjög nánir.

Hér má lesa viðtalið í heild sinni.