Árás gerð á Sýrland

Bandaríkin, Bretland og Frakkar hefna árásarinnar í Douma

Árás gerð á Sýrland

Bandaríkin, Bretland og Frakkland gerðu í gærkvöldi árás á skotmörk stjórnarhersins í Damaskus í Sýrlandi. Flugskeytum var skotið frá herskipum í Miðjarðarhafi og slugvélar gerðu sprengjuárásir.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna sagði þegar hann tilkynnti árásina í sjónvarpi í gær að hún væri svar vesturveldanna við efnavopnaárás sem gerð var í Douma um síðustu helgi, sem Trump lýsti sem „viðurstyggilegri.“

Skotmörk árásarinnar í gærkvöldi voru valin í því markmiði að koma í veg fyrir frekari framleiðslu, dreifingu og notkun efnavopna. Rannsóknastofur í Damaskus og vopnabúr í Homs voru sprengd um klukkan 4 í nótt að staðartíma.

Trump sagði Rússa ábyrga á framferði Sýrlendinga. Þeir hefðu brotið loforð sitt um að halda aftur af efnavopnanotkun þeirra. Nú þyrftu Rússar og Íranir, sem styðja Sýrlandsstjórn, að ákveða hvort þau vildu áfram láta bendla sig við fjöldamorð á saklausum borgurum. „Ríki heimsins verði dæmd af vinum þeirra,“ sagði Trump.

Rússar höfðu hótað að skjóta niður flugskeyti Bandaríkjanna ef til árásar kæmi en ekki er vitað hvort Rússar beittu sér í gærkvöldi, en þeir hafa fordæmt árásina harðlega og krefjast neyðarfundar í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Í yfirlýsingu sýrlenskra stjórnvalda eftir árásina segir að flugskeytin hafi flest verið skotin niður.

Í yfirlýsingunni var áras vesturveldanna fordæmd og sögð „grimmilega og villimannsleg.“

James Mattis varnarmálaráðherra Bandaríkjanna sagði í gær að árásin hefði verið tvöfalt öflugri en hefndarárás Bandaríkjanna í apríl í fyrra, þegar tæplega 60 flugskeyti voru notuð.

Nýjast