Andleg líðan mælist verst á austurlandi

Fleiri Austfirðingar álíta andlega heilsu sína lélega heldur en íbúar annarra landshluta. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) segir enga eina augljósa skýringu á bak við tölurnar en geðheilbrigðisþjónusta stofnunarinnar hefur verið efld verulega undanfarin misseri. Þetta kemur fram í Austurfrétt í dag. 

Þetta kom fram þegar lýðheilsuvísar ársins 2018 voru kynntir á vegum Landlæknisembættisins á Egilsstöðum fyrir skemmstu. Á Austurlandi telja 27,5% andlega heilsu sína lélega en landsmeðaltalið er 21,1%. Andleg líðan á svæðinu hefur versnað töluvert frá árinu 2012 þegar rúm 20% Austfirðinga töldu hana lélega.

Guðjón Hauksson, forstjóri HSA, segir tölurnar áhyggjuefni en á erfitt með að benda á skýringar. „Geðheilbrigðisvandi er ekki bara viðfangsefni heilbrigðiskerfisins heldur samfélagsins í heild. Vandinn er oft flókinn og þarf þverfaglega nálgun. Eins þarf samfélagið að sjá hvað betur má gera. Í litlum samfélögum eins og hér, þar sem allir þekkja alla, skiptir máli að hver einstaklingur fái að lifa á sínum styrkleikum og vera viðurkenndur eins og hann er.“

Hjá HSA hefur áhersla á geðheilbrigðismál verið aukin síðustu misseri. Tveir sálfræðingar komu til starfa síðasta haust og nýverið var auglýst eftir yfirsálfræðingi sem vonast er til að taki til starfa í lok sumars. Þá hefur verið sett á laggirnar þverfaglegt geðteymi til að takast á við flóknari vanda. „HSA er með geðheilbrigðismál á oddinum. Oft hefur heilbrigðisþjónusta byggst í kringum líkamlegan vanda en við vitum að það er engin heilsa án geðheilsu.“

Minni notkun ávanabindandi lyfja

Í lýðheilsuvísunum kemur einnig fram mikil notkun þunglyndislyfja, einkum meðal kvenna, á Austurlandi. Guðjón bendir á að þegar lyfjanotkunin sé greind nánar sjáist að á starfssvæði HSA sé minnstu ávísað af kvíðastillandi eða róandi lyfjum sem séu ávanabindandi og nýtt til að bregðast við bráðavanda. Hins vegar sé mest notað af langvirkandi þunglyndislyfjum. „Heilbrigðisþjónustan hefur verið gagnrýnd fyrir hve mikið er ávísað af ávandabindandi lyfjum en við meðhöndlum minna með þeim hér en í öðrum landshlutum,“ segir Guðjón.

Þá eru einnig ýmsar tölur sem tengjast andlegri líðan jákvæðar eystra, til dæmis er áfengisneysla minnst hér.