Aldís sendi reikninga fyrir 7,5 milljónir: sinnti fullu starfi á vegum íbúðalánasjóðs samtímis

Aldís Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri húsnæðisbótasviðs Íbúðalánasjóðs og fyrrverandi yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sendi Samkeppniseftirlitinu verktakareikninga fyrir 7,5 milljónir króna vegna starfa á tímabilinu 12. mars 2018 til 6. ágúst síðastliðins.

Í forsíðufrétt ViðskiptaMoggans segir að samhliða hlutverki Aldísar hjá Samkeppniseftirlitinu hafi hún sinnt fullu starfi á vegum Íbúðalánasjóðs.

Þá er greint frá því að hlutverk Aldísar hjá Samkeppniseftirlitinu hafi meðal annars verið að rannsaka Gylfa Sigfússon, fyrrverandi forstjóra Eimskips en sú rannsókn hefur staðið yfir í tæp tíu ár.

Í fréttinni segir að Aldís hafi tekið við starfi framkvæmdastjóra húsnæðisbútasviðs hjá Íbúðalánasjóði í febrúar á þessu ári en síðan þá hefur vinna hennar fyrir Samkeppniseftirlitið dregist verulega saman. Að meðaltali hefur Aldís þegið ríflega 441 þúsund krónur í laun á mánuði hjá eftirlitinu en reikningarnir voru misháir á milli mánaða.

Eins og áður sagði var Aldís yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á sínum tíma en fyrir það starfaði hún meðal annars sem lögreglufulltrúi í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra.