Agnes um ólaf: „mér finnst þetta frekar ósmekklegt“

 Það voru ekki allir sáttir við að Dómkirkjan hafi verið opin hælisleitendum um miðjan marsmánuð þegar mótmæli fóru fram á Austurvelli. Lögreglan beitti mótmælendur ofbeldi og á samfélagsmiðlum mátti sjá talsverða vandlætingu á framgöngu hælisleitenda. En svo voru aðrir sem tóku þeirra málstað. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands var í þeim hópi. Hún er í viðtali við Mannlíf þar sem hún tjáir sig um mótmælin og framgöngu þingmanna.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins var sá þingmaður sem sýndi mesta vandlætingu í sölum Alþingis. Ólafur talaði um tjaldbúðir hælisleitanda á Austurvelli og sagði að æðstu menn þjóðkirkjunnar hefði breytt Dómkirkjunni í „almenningsnáðhús. Þá furðaði hann sig á að æðstu menn kirkjunnar væru á Austurvelli ásamt mótmælendum. Agnes segir að hluti fólksins hafi nýtt sér þjónustu kirkjunnar.

„Það að opna Dómkirkjuna fyrir öllu fólki, líka fyrir hælisleitendum, er bara í anda frelsarans,“ sagði Agnes og bætti við að umræða um hælisleitendur mótaðist oft af ótta og hræðslu við hið óþekkta:

„Menn hafa sínar skoðanir og ef það má láta allar skoðanir í ljós á þingi þá hljóta þingmenn að hafa leyfi til þess. En mér finnst þetta frekar ósmekklegt. Það er hægt að nálgast öll mál á mismunandi máta, maður getur verið jákvæður og neikvæður og alls konar en mér fannst þessi umræða frekar í neikvæðari kantinum. Við opnum kirkjurnar fyrir fólkinu okkar og hjálpum hælisleitendum vegna þess að við erum kristin, ekki vegna þess að þau eru kristin.“

Þá sagði Agnes einnig:

 „Við megum ekki láta óttann stjórna okkur. Óttinn getur haft þau áhrif á okkur að við önum ekki áfram í einhverjum glannaskap en hann má ekki stjórna lífi okkar. Hvernig er það með fólk sem er alltaf hrætt? Því líður ekki vel. Þannig að ég held að eina og besta leiðin sé samtal. Þess vegna fór ég í moskuna og þess vegna reyndi ég með nærveru minni á Austurvelli að sýna að ég vil að þeir sem fara með lögin og reglurnar, fólkið á þinginu, að það komi út úr húsinu og tali saman. Að það heyri frá fyrstu hendi sögur þeirra og hvað þau eru að biðja um. Múslimar vilja, eins og ég sagði áðan, vera góðir samfélagsþegnar og ég sé ekki betur en að þetta sé bara fólk eins og ég og þú. Þetta er bara fólk sem þráir að lifa í friðsömu landi þar sem mannréttindi eru virt, þar sem er borin virðing fyrir manneskjunni eins og hún er, alveg sama af hvaða kyni hún er, hver kynhneigð hennar er, hverrar trúar hún er og svo framvegis.“

 Hér má lesa viðtalið í heild sinni.