Æðstu stjórnendum boðin risa launahækkun: gerist á sama tíma og staða haraldar er í óvissu: „breyting hefur þannig áhrif út fyrir gröf og dauða“

„Tólf aðstoðar- og yfirlögregluþjónum hjá embætti ríkislögreglustjóra hefur verið boðinn samningur sem tryggir þeim betri kjör. Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélags Íslands og lögreglustjóri á Vesturlandi, gerir alvarlegar athugasemdir við samkomulagið. Samkvæmt bréfi sem Úlfar sendi dómsmálaráðuneytinu, verða aðstoðar- og yfirlögregluþjónarnir með hærri laun en 7 af 9 lögreglustjórum landsins, verði samkomulagið að veruleika. Þá hækka lífeyrisgreiðslur þeirra sem greiða í B-deild LSR.“

Þetta kemur orðrétt fram í frétt á vef RÚV. Þar segir enn fremur að með samkomulaginu munu 50 yfirvinnustundir færast inn í föst mánaðarlauna starfsmanna. Þar með aukast lífeyrisréttindi þeirra sem greiða iðgjöld í B-deild LSR. Þá segir einnig á vef RÚV að breytingin hafi hugsanlega áhrif á réttindi þeirra sem þegar eru komnir á eftirlaun hjá viðkomandi stofnun. Í bréfinu segir: „Breyting hefur þannig áhrif út fyrir gröf og dauða.“

Þá segir Úlfar einnig að tímasetningin sé einkennileg í ljósi þess að kjarasamningar eru lausir auk þess sem breytingin eigi sér stað á óvissutíma hjá ríkislögreglustjóra. Þar vísar Úlfar til þess að gustað hefur um Harald Johannessen, ríkislögreglustjóra, að undanförnu en níu lögregluþjónar hafa lýst yfir vantrausti á Harald. Úlfar segir á öðrum stað:

„Hér blasir við að tryggja á betri lífeyrisréttindi aðstoðar- og yfirlögregluþjóna sem greiða iðgjöld í B-deild LSR og eiga þess kost að fara á eftirmannsreglu í beinu framhaldi af starfi.“

Ítarlega umfjöllun er að finna á vef RÚV.