130 listamenn vilja sýna

Listasafni Reykjavíkur hafa borist umsóknir frá yfir 130 listamönnum um þátttöku í D-salar röð Hafnarhússins árið 2019. Listamennirnir eru bæði íslenskir og erlendir. Fjöldi umsókna er langt umfram væntingar og segir Ólöf Kristín Sigurðardóttir safnstjóri Listasafns Reykjavíkur að „þessi mikli fjöldi umsókna sýni fram á hve verkefnið sé þakklátt og hve mikil gróska sé í myndlistinni.“

 

Tilkynnt verður um val á listamönnunum við opnun næstu sýningar í D-sal, þann 13. október, þegar opnuð verður 34. D-salar sýningin með verkum listakonunnar Maríu Dalberg. Ráðgerðar eru fjórar sýningar í D-sal árið 2019.

 Um miðjan júlí auglýsti Listasafn Reykjavíkur eftir umsóknum listamanna til að sýna í D-sal Hafnarhússins árið 2019. Frestur til að senda inn umsóknir rann út á miðnætti 31. ágúst sl. Þetta er nýtt fyrirkomulag á vali á listamönnum í sýningarröðina en markmið hennar er að gefa listamönnum með skamman feril að baki tækifæri til að beina athygli að listsköpun sinni.

 Sýningarröðin í D-sal Hafnarhússins hóf göngu sína árið 2007 og þar hafa rúmlega þrjátíu listamenn sýnt verk sín. Á sýningunum eru kynntir til leiks listamenn sem hafa sterka og persónulega listræna sýn en hafa ekki áður haldið einkasýningu í opinberu safni.