Það er nú það: hvert fara 10 milljarðarnir sem ríkið innheimtir í kolefnisskatt af olíugeiranum?

Umhverfismál eru í brennidepli á hverjum degi. Þess vegna má spyrja sig: Hvert þeir 9 til 10 milljarðarnir sem ríkið innheimtir í kolefnisgjöld af olíugeiranum? Í hvaða græn verkefni er þeim varið?  Jón Ólafur Halldórsson, frkvstj. Olís og formaður Samtaka verslunar og þjónustu, er gestur Jóns G. í kvöld og koma þeir víða við í viðtalinu.

Hann segir að viðskiptavinir Olís greiði um 3 milljarða í kolefnisskatt á ári og þessi skattur sé í kringum 9 til 10 milljarðar hjá olíugeiranum eins og hann leggur sig. „Hins vegar sjáum við ekki hvernig þessum grænum sköttum er varið í þessi grænu verkefni. Þess vegna eru fyrirtæki í auknum mæli að kolefnisjafna sinn rekstur aukalega, líkt og Olís gerir,“ segir Jón Ólafur.

Olís býður sínu viðskiptavinum upp á kolefnisjöfnun og gerði á dögunum nýjan samning við Landgræðsluna til fimm ára. Fyrirtækið hefur látið umhverfismál til sín taka á undanförnum áratugum.

Jón Ólafur rifjar upp í viðtalinu hvað Óli heitinn í Olís hafði mikið frumkvæði í grænum skrefum en hann stóð að samvinnuverkefni Olís og Landgræðslunnar þegar árið 1992 en yfirskrift þess var: Græðum landið með Olís.