Svona fékk Eyþór Morgunblaðið: Glórulítill gjörningur Eyþórs og Samherja

Eyþór Arnalds fjárfestir og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins þarf ekki að greiða Samherja þá fjármuni sem ársreikningar félags hans sýna að hann hafi skuldbundið sig til að greiða fyrir hlutabréfin í Morgunblaðinu frá árinu 2017. Þetta kemur fram í Stundinni.

Þar segir að Útgerðarfélagið Samherji hafi afskrifað meira en helming af kröfum sínum á hendur eignarhaldsfélagi Eyþórs. Stundin vitnar í ársreikninga félaga í eigu Samherja sem og í félag Eyþórs, Ramses II ehf.

Í Stundinni segir að viðskiptin líti út fyrir að vera sýndarviðskipti þar sem Samherji hafi viljað losna við hlutabréf í Morgunblaðinu og eignarhaldsfélag Eyþórs tók við hlutabréfunum án þess að hafa greitt fyrir þau eða þurfi þess í nánustu framtíð. Ingi Freyr Vilhjálmsson sem fjallar ítarlega um viðskiptin í Stundinni skrifar að gjörningurinn virki glórulítill út frá viðskiptalegu sjónarmiði, og þá sérstaklega í ljósi þess að uppsafnað tap Morgunblaðsins síðastliðinn áratug, frá uppkaupum nokkurra stærstu útgerðarfélaga landsins á því, nemur um 2 milljörðum króna.

Árið 2017 hélt Eyþór fram að um alvöru viðskipti væri að ræða en þá keypti hann hlutabréfin á 325 milljónir. Þá sagði Eyþór:

„Þetta eru alvöru, sjálfstæð viðskipti og verðið er trúnaðarmál. Samherji seldi þessi hlutabréf og ég er ekki skuldbundinn þeim með nokkrum hætti í kjölfarið. Ég er engum háður.“

Eyþór fékk lán fyrir þessum hlutabréfum frá félögum í eigu Samherja. Þá segir í Stundinni:

„Flest bendir hins vegar til þess að þessi viðskipti Eyþórs hafi heldur ekki falið í sér mikla áhættu fyrir hann þar sem hann greiddi líkast til ekkert fyrir hlutabréfin úr eigin vasa.“