Ekki fréttnæmur fundur

Menn eru nú loksins farnir að þora að segja skoðanir sínar á fundi Evrópuráðsins sem haldinn var hér í vikunni og allt snérist um hér áí hálfan annan dag. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa að mestu haft orðið um þennan fund og gefið honum einkunnir, algerar ágætiseinkunnir og talið hann fullkomlega vel heppnaðan. Þeim er þó málið skylt og eru fráleitt óvilhallir dómarar í þessu efni. Loksins núna eru aðrir farnir að koma fram og lýsa öðrum skoðunum. Jafnvel efasemdarröddum.

Sjálft Morgunblaðið, málgagn núverandi vinstri stjórnar, hefur opnað á umræðu um raunverulega niðurstöðu fundarins og þau vonbrigði sem hann veldur mörgum. Prófessor Eiríkur Bergmann og Þórdís Ingadóttir lagaprófessor lýsa skoðunum sínum í viðtali við blaðið í gær og fara ekki dult með það að niðurstaða fundarins hafi ekki verið sérstaklega fréttnæm, eins og reyndar er tekið upp í fyrirsögn blaðsins á fimm dálka frétt um að fundurinn hafi í raun og veru alls ekki verið merkilegur og hreint ekki markað nein tímamót andstætt því sem hafði verið látið í veðri vaka í aðdraganda fundarins.

Í helgarblaði Morgunblaðsins fjallar svo höfundur Reykjavíkurbréfs um fundinn og sjálft Evrópuráðið með sínum hætti. Þar gerir hann hvorugu hátt undir höfði og leggur sig allan fram um að móta einhverja gilda fimmaurabrandara um efnið sem gerir umfjöllunina því miður ruglingslegri en þurft hefði að vera. Það er ágætt að maður, sem hefur kynnst allri þeirri sýndarmennsku sem fundarhöld af þessu tagi einkennast af, tjái sig. En þá er betra að það sé gert af alvöru en ekki í misskilinni tilraun til að bæta við landsþekkt safn fimmaurabrandara hans.

Fyrir liggur að Evrópuráðið er ekki vettvangur ákvarðanatöku og þess vegna þarf ekki að koma á óvart að fundurinn hafi skilað litlu. Væntingar voru óraunhæfar.

Fram hefur komið að heimspressan hafði engan áhuga á fundinum. Einhverjir héldu að þessi fundur yrði eins áhugaverður og eins mikil auglýsing fyrir Ísland og fundur Reagans og Gorbatsjovs var árið 1986 þegar þeir hittust tveir í Höfða. Þá beið heimspressan í ofvæni, nokkuð sem ekki gerðist að þessu sinni. Mikill misskilningur er því að tala um að fundurinn í síðustu viku hafi verið mesti viðburður Íslandssögunnar. Því fer fjarri.

Fundurinn er trúlega dýrasti viðburður Íslandssögunnar fyrir skattgreiðendur. Kostar á þriðja milljarð króna – ef ekki meira. Skattgreiðendur horfa á þetta og leggja það á vogarskálar hvort þessum skattpeningum hefði ekki verið betur varið til velferðarmála eða til að bæta samgöngumannvirki sem stöðugt er meiri þörf á.

Þær stöllur, Katrín Jakobsdóttir, leiðtogi vinstri stjórnarinnar, og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, verðandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa væntanlega báðar vonast til þess að öll athyglin sem beindist að þeim í þessari dúfnaveislu hjálpaði flokkum þeirra til að rétta eitthvað af dvínandi fylgi þeirra.

Það kemur fljótlega í ljós. Gæti alveg farið í öfuga átt.

- Ólafur Arnarson.