Yndislega íslandið okkar

Varúð - þið sem eruð viss um að fyrirsögnin að ofan sé yfirskrift kaldhæðnisskrifa (sem er lógísk ályktun miðað við margt efni hér í Kvikunni á Hringbraut) hættiði strax að lesa og smellið yfir á Stundina, Kjarnann eða eitthvað! Það sem hér fer á eftir er nefnilega sykursætt, við erum að tala um óð til gleðinnar.

Örfá dæmi því til rökstuðnings:

Í vikunni stóð ég við kassa í verslun með tvo fulla matvörupoka og uppgötvaði þá að ég var ekki með veskið mitt.

\"Ekkert mál, sagði afgreiðslukonan, ég set þetta í biðreikning og þú kemur áður en við lokum og borgar.\"

Yndislega Ísland.

Annað dæmi: Ég skrifaði frétt um daginn um ungan mann sem hafði líka gleymt veskinu sínu við sömu kringumstæður. Hann bjó í stærri bæ en ég, þar sem ókunnugleiki manna á milli er norm. Erfiðara að slá kassadömuna um lán! Fréttin fjallaði um að ókunnur eldri maður bauðst þá til að lána manninum fyrir vörunum. Ungi maðurinn greidd skuld sína síðar inn á reikning góða mannsins.

Yndislega Ísland.

Þriðja dæmið: Ég gleymdi einu sinni myndavélinni minni í bókabúð - já ég veit, ég er voðalega utan við mig stundum. Var ekki búinn að uppgötva tapið sjálfur þegar síminn hringdi og maður sem vann í búðinni spurði hvort það gæti verið að ég hefði orðið viðskila við myndavél. Ókunnugur Íslendingur hafði fundið hana á borði og skilað henni til starfsfólksins. Gott og vel, það hefur ekki skemmt fyrir að sumir landa minna kannast við fésið á mér eftir áratuga fjölmiðlastörf en eigi að síður má fullyrða að það er ekki úrslitaatriði í þessari frásögn. Lærdómurinn er að fólk er gott, fólk er ekki gráðugt, það stelur ekki frá öðrum nema það þurfi þess og sé svangt, óhamingjusamt eða hafi fengið rýrar vöggufjafir.

Yndislega Ísland.

Í fjórða lagi: Ég bý mig undir að aka milli Akureyrar og Reykjavíkur. Það er sól og logn, bjart og fallegt. Þótt veturinn sé búinn að vera snjóþungur og dimmur birtir öll él upp um síðir. Ég ætla að gera það sem sagði í áramótaskaupinu. Njóta þess að horfa á ægifagra náttúru landsins okkar meðan ég sporðrenni vænum rjómaís, því á sumrin bara fáum við okkur ís og verðum glöð. Eftir því sem fram kom í Skaupinu.

Gildir einu þótt það sé erfiðara að hafa í sig og á hér en í sumum öðrum löndum vegna efnahagsstefnu, óréttlátrar auðlindaskiptingar, hrikalegra fyrirmynda í pólitíska heiminum. Það eru ekki mörg lönd þar sem allir hafa þak yfir höfuðið og fæstir svangir lengi í einu.

Ísland byggir gott fólk í fögru, öruggu og óttalausu landi.  Því megum við aldrei gleyma.