Djöfuls íslendingar!


Í gær urðum við vitni að því í gegnum Ríkisútvarpið að Íslendingar, búsettir í Þýskalandi, mega nú þola að á þeim dynji spurningar vegna stjórnarfars og siðspillingar hér heima sem hefur orðið að forsíðufréttum út um allan heim.
Og ætlum við bara að fylgjast með þessari umræðu í gegnum útlönd - í stað þess að moka skítnum út úr hesthúsinu?
Það er vegna siðspillingarinnar og einkennilegs sambands þjóðarinnar við spillta stjórnmála- og viðskiptamenn sem mörgum hefur ekki liðið vel í þessu landi síðari ár. Á ferðalagi utan landsteinanna fyrir tveimur árum hitti ég nokkra Íslendinga, vel menntaða og klára sem bjuggu í Kaupmannahöfn. Þeir sögðu allir það sama: Lífsgæðin væru vissulega betri í Danmörku en hér en samt væri það ekki ástæða þess að þeir kusu að yfirgefa Ísland. Ástæðan var siðleysið í þessu landi og hvernig andverðleikar væru kerfisbundnir teknir fram yfir dyggðir hér á norðurhjaranum.
Við erum að tala um ókosti einangrunar. Með sama hætti og meiri líkur eru á að kynferðisleg misnotkun verði þögguð niður og ekki við henni brugðist í litlu þorpi úti á landi þar sem allir þekkja alla og samband þolenda og gerenda litast af meðvirkni og ótta fremur en á stærri stöðum þar sem ókunnugleiki manna á millum er norm, hafa ósiðir fámennis og einangrunar blómstrað á þessu landi hjá forkólfum ríkis og ráðandi efnahagslífs þótt einnig mætti finna margar ástæður til að hampa dugnaði og eljusemi okkar góðu þjóðar og skrifa um það pistil.
Gildir einu hve margar lofgreinar um sjálfan sig Davíð lætur birta í eigin blaði. Skoðun sýnir að í því umróti sem fylgt hefur aukinni verðmætasköpun hefði þurft að setja strangar reglur hér á landi þar sem siðvitið væri ekki til færri fiska metið en lagagreinar. Við erum að tala um stökkbreytt einangrað samfélag sem með nýrri tækni og tækifærum hefur breyst í eitt ríkasta samfélag heims. En gæðunum er skipt með hróplega óréttlátum hætti. Innviðir samfélagsins fá ekki nema brot af þeim skatttekjum og gjöldum sem ættu að renna inn í almannasjóði. Gjaldmiðill og ofurvextir halda 80% Íslendinga í efnahagsfjötrum og verða þess valdandi að við vinnum alla daga og nætur ef það er í boði - til að komast sæmilega af. Lífsgæði mun lakari en skyldi og ófrelsi borgara mikið, fyrir frjálsa tjáningu og gagnrýni hefur verið refsað með fullum þunga og valdið jaðarsetningu hjá góðu fólki. Stjórnmála- og viðskiptastéttir hafa farið fremst í spillingunni og þeir hafa komist upp með það, bófarnir, m.a. vegna þess að við erum ekki hluti af stærri hópi og höfum ekki samanburð við eldra siðvit. Einangrun íslenska þorpsins sem aðhefst ekki gegn broti er ein ástæða andstöðu ríkjandi afla hér við ESB. Í hópi siðaðra þjóða komust við síður upp með eigin ósiði.
Ég hef ekki gert upp minn hug varðandi aðild að ESB enda hef ég ekki fengið tækifæri til þess - ekki frekar en aðrir Íslendingar. Sú er ein hlið þess andlýðræðisofbeldis sem maður lætur yfir sig ganga. En á umliðnum árum hef ég oft séð hvernig umbæturnar koma að utan. Nú síðast hyllir undir réttarbót sem kann að stöðvar gjafir Landsvirkjunar á raforku, þökk ESA, til mengandi auðhringa undir verndarvæng vondra stjórnmálamanna. En þá fara menn að ræða báknið í Brussel! Eins og að reglur og lagarammar sem miðast að því að deila út þjóðarauði með réttlátum hætti og gæta mannréttinda borgara séu af hinu vonda!
Vandi Íslands er þó ekkert einsdæmi á heimsvísu. Þekkt er að áhersla á siðvit, menntun og mannauð er minni í þjóðfélögum sem eru rík af náttúrlegum auðlindum. Spilling er meiri í slíkum ríkjum og verður því meiri sem lönd liggja utar deiglu þróaðra samfélaga. Þess vegna er frelsandi á sama tíma og það er óþægilegt, skaðlegt fyrir orðsporið og vont fyrir okkur sem þjóð, að spegla okkur loks í andúð alþjóðasamfélagssns gagnvart okkur sem frumstæðri eyþjóð nú um stundir. Því ábyrgð almennings er nokkur, kjósendur hafa hér verið sér á parti. Þeir hafa gengið staurblindir og siðvilltir inn í kjörklefana eltandi forystusauði sem lofa kraftaverkum sem einkum frumstæðir hópar íbúa falla fyrir. Stærstur hluti þjóðar hefur hvað eftir annað kosið yfir sig bófana sem hafa valdið íslensku samfélagi mestum skaða. Og hvaða skilaboð felast í nýjustu fylgiskönnun Gallup? Má ráða með sama hætti og framsókn bætir nú við sig að því fleiri aflandsmál sem skekja Ólaf Ragnar og frú verði hneykslin til aukinna vinsælda fyrir forsetahjónin?

Þjóðin er illa upplýst, hún hefur lært þann ósið að fylgja vondum straumum og hefur þar ekki verið spurt um rétt og rangt heldur tengsl. Hún hefur vegna vinnuþrælkunar og veraldlega streðsins sem er afurð þess sem fyrr er nefnt ekki gefið sér tíma til að komast út úr frumstæðri vertíðarhugsun. Þegar uppgrip eru í loðnu eða ferðamennsku nenna Íslendingar hvorki að ræða réttlæti, siði, sjálfbærni, heimspeki, menningu, listir, stjórnmál eða nokkra æðri hluti yfir höfuð. Menn bara vinna, vinna, vinna, þakka fyrir að láta píska sig til og láta sig jafnvel hafa það að fá borgað í álkrónum!

Það er orðið tímabært að spyrja hvort okkur langi til að breyta landinu til hins betra, kenna börnum okar betri siði eða sætta okkur við að örfáir útvaldir, voldugir og ríkir spili með okkur áfram eins og örlagafábjána.
\"Við erum búin að verða okkur til háborinnar skammar um víða veröld og ekki síst í okkar nágrannalöndum, eins og Þýskalandi,“ sagði Arthúr Björgvin á Morgunvaktinni í gær.
Við getum hrópað á torgum úti, uppfull að sjálfsvorkunn; Djöfuls Íslendingar, samfélagið er ónýtt! Við sem höfum tækifæri til þess gætum flúið skerið og sest að í Kaupmannahöfn af sömu ástæðu og fyrr er getið. Eða aðhafst? Tæklað meinin.

Hvort velur þú?

Björn Þorláksson