Kamikaze-ferðalag framsóknarflokksins

Ég hef áður vitnað til áherslu föður míns heitins á að ég kysi Framsóknarflokkinn. Hann hringdi alltaf í mig eftir að ég fékk kosningarétt og spurði hvort ég væri búinn að kjósa eftir að ég fluttist burt úr heimahögum, Mývatnssveitinni. Stundum fylgdu leiðbeiningar um hvert ég ætti að fara og hvernig ég kæmist á kjörstað: \"Og mundu svo bara: XB, Bjössi minn,\" sagði hann svo.

Ég hafði engar skoðanir á íslenskri flokkapólitík þótt samfélagsáhugi kviknaði snemma en fannst bara ágætt að búa við gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi og gott menntakerfi sem á mínum ungdómsárum var talað upp en ekki niður. Friður var á götum úti og gaman að djamma um helgar. Svo fóru búðir að selja rækjusalat í dós og þá bötnuðu lífsgæði mín verulega, man ég enn! Ég veit ekki hvort Framsóknarflokkurinn stóð á bak við rækjusalatið, kannski var það Alfreð Þorsteinsson risarækjueldisorkuveitumaður síðar sem var svo framsýnn og sókndjarfur að eygja fyrstur Íslendinga gróðavon í rækjum böðuðum í majonesi, en ég sumsé sá ekkert því til fyrirstöðu að kjósa framsókn ungur þannig að ég bara gerði það. Fyrir pabba.

Þetta var töluvert áður en ég fór að velta fyrir mér áhrifamætti upplýstra ákvarðana. En eigi að síður hef ég aldrei séð eftir þeim atkvæðum sem runnu inn í Framsóknarflokkinn þegar ég var ungur maður. Ég kaus Framsókn þangað til ég hóf full störf við blaðamennsku. Frá og með þeim degi tók ég það alvarlega trúverðugleikans vegna að vera flokkspólitískt viðrini. Sem blaðamaður hef ég aldrei gert upp minn stjórnmálahug fyrr en í kjörklefa hverju sinni. Það er ágæt regla fyrir blaðamann.

En pabbi er sumsé dáinn fyrir nokkru sem og sú framsókn sem hann studdi. Margt gæfuskrefið var áratugum saman stigið í þingeysku héraði undir stjórn framsóknarmanna. En frá og með ítökum Finns Ingólfs, Kidda Finnboga, Halldóri, Kárahnúkum og því öllu villtist fyrrum flokkurinn okkar pabba af leið. Hann hefur nú brotlent á skeri svo eftir er tekið.

Síðasta brotlendingin var í síðustu viku þegar Sigurður Ingi Jóhannsson og flokkstjórn Framsóknarflokksins tjáðu sig um ákvörðun fyrrum vinnuveitanda míns á Tímanum, Hrólfs Ölvissonar. Þá ákvað Hrólfur (sem ég seldi einu sinni forláta flygil til að dóttir hans gæti æft sig á píanó) að segja af sér sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins. Hrólfur er í Panamaskjölunum og fyrir vikið ekki sérstaklega góð auglýsing fyrir heilindi og trúverðugleika. Þess vegna sagði Hrólfur af sér. Prik fyrir það, Hrólfur, gamli vinnufélagi.

\"En það var engin ástæða fyrir Hrólf að segja af sér,\" sagði öll stjórn Framsóknarflokksins og þar á meðal varaformaðurinn, forsætisráðherra svokallaður, þegar fréttamenn leituðu viðbragða. Þeir botnuðu foringjarnir ekkert í Hrólfi að axla þessa ábyrgð sína, að horfa til siðbótar svo við gætum öll sem samfélag haldið áfram á ómorknum grunni.

Rifjaðist með þessum viðbrögðum upp að það var alveg eins með SDG og hans megahneyksli. Hvort sem þeir hétu Karl H. Garðarsson eða eitthvað annað sáu þingmenn Framsóknarflokksins aldrei ástæðu til að Sigmundur Davíð axlaði ábyrgð fyrr en þjóðin í heild gaf honum rauða spjaldið. Það var ekki fyrr en framsóknarforkólfarnir fundu að samfélagið hafði sagt hingað og ekki lengra sem þeir breyttu um kúrz. Af eigingjörnum hvötum. Og manni dettur í hug að orðið siðferði hafi hin síðari ár glatast gjörsamlega í orðabókum Framsóknarflokksins.

Því var það líkt og að fylgjast með kamikaze sjálfsmorðsflugi að sjá Sigurð Inga og félaga, nokkrum mánuðum fyrir kosningar, ramma það inn í vitund eigin þjóðar að heiðarleiki og siðferði skipti engu máli, að klíkubönd framsóknarvina skuli ávalt sterkari en allt annað. Það er tiltölulega stutt í næstu þingkosningar en hafi atkvæði í skógi nokkru sinni flogið eins hratt í burtu var það vegna þessara viðbragða forsætisráðherra og varaformanns flokksins. Sjálfsmorðsflug framsóknarvina virðist bara engan endi ætla að taka. Það fer vél upp í himingeiminn á hálftíma fresti og það er ekki séns að hún komi heil til baka. Og þótt Framsóknarflokkurinn hafi náð aukningu í fylgi miðað við síðustu kannanir eftir hrun niður í 7% held ég að það sé ekkert til að stæra sig af. Ég held að þar séu um borð atkvæði sem Jakob frá Grímsstöðum og félagar forðum í sveitinni hefðu aldrei náð sambandi við.

Eins gott að þú verðir ekki vitni að þessu, pabbi. Ef við hittumst á himninum síðar vonast ég til að við ræðum eitthvað allt annað en þetta. Við færum seint að spilla góðri stund í himnaríki með því að elta ólar við þetta rugl. Nær væri að ræða af hverju hornsílastofninn er hruninn í Mývatni.

Þú lifir enn í mínu hjarta, pabbi minn, hvern dag, framsóknarmaðurinn sem þú varst og ert. Ég man alla daga eftir samvinnuhugsjóninni þinni. En þessi flokkur okkar fyrrum virðist steindauður. Hvað finnst þér að við hin sem skoppum enn um á jarðkringlunni ættum að kjósa næst?

Björn Þorláksson