Kennslustund í fátækt - hvað er í gangi?

Þversögn samtímans er að á sama tíma og peningar gusast inn í landið, þökk sé flæðandi túrisma, á sama tíma og ríkiskassar fitna, á sama tíma og lausn er í sjónmáli í alþjóðlegum efnahagsmálum sem borgar upp allar skuldir ríkisins á einu augabragði eru innviðir landsins að bresta af því að þeim er haldið í fjárhagslegu svelti.
Menntakerfið, heilbrigðiskerfið og samgöngukerfið koma strax upp í hugann.
Maður dó á Landspítalanum um helgina að því er talið er vegna mistaka skv. frétt 365. Hann var erlendur, en ef lítið íslenskt barn hefði dáið vegna álags, fjársveltis eða óskilvirkni; hefði það dugað til að knýja fram þótt ekki væri nema næga fjármuni til að við hættum að geyma sjúkt fólk í kústaskápum spítala?
Skólar eru fjársveltir, starfsmenntun og virðing kennara er töluð niður við hvert tækifæri. Ráðist er að hag erlendra námsmanna á sama tíma og einkafyrirtæki spretta upp og bjóða lán til námsmanna.
Og nú liggur fyrir að fórnarkostnaður nískunnar og skammsýninnar, að verja eins litlu fé og raun ber vitni til viðhalds og uppbyggingar samgöngukerfa landsins, er heldur betur að koma í andlitið á okkur. Munar þar um aukið álag vegna fjölda ferðamanna. En aukið álag þarf ekki að vera böl heldur blessun. Ef mér dytti í hug að græða á samlokugerð og seldi þúsund samlokur á dag. Tæki svo þá ákvörðun að stefna að tvöfaldri sölu, dytti mér aldrei annað í hug en að hráefniskostnaður myndi aukast - en gróðinn aukast enn meira en sem næmi útlögðum kostnaði. Af hverju er þá látið eins og það sé heilbrigð hugsun að græða sem mest á sem skemmstum tíma án þess að stofna til eðlilegs kostnaðar á móti? Ekki græðir nokkur maður af engu - ekki nema að hann hafi komið fyrir í Panamaskjölunum!
Rúv greinir nú frá því að ástand vega landsins sé þannig víða að óttast sé að einhverjir kaflar þjóðveganna fari hreinlega að hrynja, t.d. þar sem bundið slitlag er að brotna niður. „Við erum núna búnir að vera í mörg ár að tjasla upp á kerfið með því að nota ódýrustu aðferðir, þynnstu lögin, nota bætur og ræmur í stað þess að leggja yfir vegina og það kemur bara að því að það dugar ekki lengur,“ segir Hreinn Haraldsson forstjóri Vegagerðarinnar í samtali við Rúv.
Á sama tíma segir Jóhann Kristjánsson verkfræðingur um tækifærin til betrumbóta í vegagerð. \"Aldrei í sögunni hefur kostað minna að leggja eða endurnýja bundið slitlag. Verð á olíu í nánast sögulegu lágmarki og verð á malbiki einnig. Krónan styrkist svo dag frá degi. Ætla menn virkilega að missa af þessu tækifæri?\"
Þær aðstæður eru fyrir hendi að það er ekki bara sjálfsagt að fara fram á endurbættan Dettifossveg svo eitt sé nefnt til að koma á móts við ferðamenn og þjónustubjóðendur heldur ætti ekki að þurfa að skrifa svona pistil til þess eins að ríkisstjórnin eyðileggi ekki innviði landsins. Er nema von að maður botni hvorki upp né niður í þeirri þversögn að á sama tíma og ríkisstjórnin þakkar sjálfri sér persónulega að hér sé logandi góðæri geri hún lítið sem ekki neitt til að sýna þjóðinni fram á að svo sé?
Ef von ríkisstjórnarinnar stendur til þess að ríkiskassinn fitni enn frekar, hvernig væri þá að taka aftur upp auðlegðarskatt, hækka veiðigjöld í átt til þess sem eðlilegt getur talist, setja skatt á erlenda ferðamenn við komu, skatt sem mætti nýta í að heilbrigðisþjónustan yrði gjaldfrjáls.
Ein ríkasta þjóð heimsins er nú með stjórnmálaforingja sem virðast hafa hrundið af stað tilraun sem gengur út á að landsmenn upplifi afturfarir og fátækt í almannaþjónustu á sama tíma og smjör drýpur af hverju strái.

Hvað er eiginlega í gangi?

Björn Þorláksson