Hvers vegna velur hann björn inga?

 

Björn Ingi Hrafnsson, eigandi DV, Eyju og nokkurra minni miðla hefur upplýst á eigin facebook-síðu að Ólafur Ragnar Grímsson hyggist ræða við hann í viðtalsþætti Björns Inga síðdegis á morgun.
Megaskúbb, segir Egill Helgason, sem bloggar á Eyjunni.
Athygli vekur að forsetinn ætli að handvelja einkamiðil Björns Inga sem vettvang til að rjúfa þögnina eftir Panamalekann sem tengist honum sjálfum og hefur orðið til þess að minnka möguleikana á að Ólafur Ragnar fái endurkjör hjá þjóðinni.
Manni dettur í hug að þegar Sigmundur Davíð snúi aftur í pólitíkina muni Björn Ingi einnig verða í hlutverki spyrilsins. Annað hvort Björn Ingi eða Arnþrúður Karls á Útvarpi Sögu. Tengsl Björns Inga við Framsóknarflokkinn og hið gamla, sumir segja gamla daunilla Ísland, koma upp í hugann.
Ríkisútvarpið reyndum vikum saman að fá viðtal við Sigmund Davíð áður en hann sagði af sér. Ólafur Ragnar hefur haldið Rúv í herkví árum saman og neitað starfsmönnum almannaútvarpsins um viðtöl en nýtt sér miðla sem hann hefur talið ósjálfstæðari og þar með hliðhollari honum sjálfum. Með því að ræða ekki við fulltrúa almannaútvarpsins sinna ráðamenn ekki lýðræðislegri skyldu sinni og ættu að gjalda fyrir.
Ég myndi fara varlega með hamingjuóskirnar þegar um ræðir fjölmiðlamenn sem valdhafar í nauðvörn handvelja af fjölmiðlatrjánum til að spinna vef sinn. Ég skil andartaks gleði fjölmiðlamanna sem ná að krækja í fréttnæmustu valdamenn hvers tíma sem viðmælendur. En ég myndi líka spyrja mig spurningarinnar: Hvers vegna velur hann mig? Í hvaða tilgangi? Og hvað þarf ég að gera til að framhald verði á?
Blesunnarlega má treysta fréttamönnum almannaútvarpsins til að virða þessar spurningar að vettugi og láta þær ekki ráða för. Faglegt sjálfstæði þeirra er yfir slíkar spurningar hafið.


Björn Þorláksson.

Uppfært kl. 11.53: Eftir að þessi pistill birtist fyrst hefur verið staðfest að Ólafur Ragnar Grímsson ætli að rjúfa þögn sína og ræða m.a. við almannaútvarpið. Það eru góðar fréttir en breyta ekki eðli þeirra spurninga sem lagðar hafa verið fram hér að ofan - á öllum tímum.
 -BÞ