Af mestu ógæfumönnum íslandssögunnar



Í siðareglum Blaðamannafélags Íslands segir eftirfarandi í 5. grein: \"Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmuna- samtökum þar sem hann á sjálfur aðild. Hann skal fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda og sóma blaðamannastéttarinnar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni starfs síns. Blaðamaður hefur í skrifum sínum sannfæringu sína að leiðarljósi. Hann gætir þess að rugla ekki saman ritstjórnarlegu efni, sem hefur augljóst upplýsinga- og fræðslugildi, og auglýsingum í myndum og/eða máli.\"
Á þetta er bent til að rifja upp lofgrein Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Davíð Oddsson og öll hans glæstu verk, kóteletturnar, skyrið, hitaveituna, ilmvatnið, er ég að gleyma einhverju?
Hannes er búinn að skrifa kannski um 3.000 lofgreinar um Davíð, enda er það þannig með Hannes að þegar hann skrifar vel um Davíð er hann að skrifa vel um sjálfan sig. Davíð framkvæmdi nefnilega nýfrjálshyggjustefnuna sem Hannes talaði fyrir og greip upp blóðhráa frá fólki sem vísinda- og fræðafólk hefur gefið fremur lága einkunn, þeim Thatcher og Reagan. Þegar hrunið eyðilagði alla drauma Davíðs og Hannesar og arfleifð þeirra varð lýðum ljós með slíku stórtjóni fyrir samfélag að hvergi eru dæmi um annað eins á byggðu bóli svo gripið sé til líkingamáls Davíðs sjálfs hrundi sjáf tilvera þessara tveggja og síðan hafa þeir barist í bökkum. En lofgreinar Hannesar um hann sjálfan og Davíð eru vitaskuld flestir hættir að lesa. Því dugði ekki minna um helgina en að splæsa í aldreifingu á Mogganum með fjórum síðum og mörgum myndum úr stjórnartíð þessara miklu meistara. Hafa þeir orðið að athlægi meðal eigin þjóðar fyrir vikið. Enn eina ferðina.
Nú er Hannes ekki blaðamaður og þarf ekki að hafa áhyggjur af siðareglum. En sá sem ritstýrir Mogga ætti að vera blaðamaður þótt sumir sjái ekki alveg hvernig það gengur upp. Blaðamönnum ber að taka almannahagsmuni fram yfir eigin sérhagsmuni. Og verður nú aftur getið 5. reglu siðareglna: \"Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmuna- samtökum þar sem hann á sjálfur aðild. Hann skal fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda og sóma blaðamannastéttarinnar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni starfs síns. Blaðamaður hefur í skrifum sínum sannfæringu sína að leiðarljósi. Hann gætir þess að rugla ekki saman ritstjórnarlegu efni, sem hefur augljóst upplýsinga- og fræðslugildi, og auglýsingum í myndum og/eða máli.\"
Davíð Oddsson er ritstjóri Moggans og ber því ábyrgð á efni blaðsins. Það er vitaskuld svo súrt að engu tali tekur að rekja það frekar að þeir Hannes hafi hist og plottað að kokkuð yrði upp söguskýring um afrek mannsins sem nú er ritstjóri Moggans í hans eigin blaði!
Ólafur Þ. Harðarson náði kannski að súmma upp mestalla vitleysuna í örfáum orðum þegar hann skrifaði opinberlega um helgina: \"Mitt mat (skoðun en ekki vísindi): DO er mesti ógæfumaður Íslandssögunnar í pólitík, Sturla Sighvatsson included.\"
Aðrir hafa þó velt fyrir sér hvort Hannes, alstyrktur af skattfé sem Bjarni Ben hefur lögsögu yfir til að endurskrifa söguna, hafi náð að toppa Davíð í ógæfumetinu. Annars eru þessi skrif dæmi um misnotkun sem nokkrir af stærri fjölmiðlum landsins nú um stundir hafa gerst sekir um. Fréttablaðið beitir leiðraraskrifum kerfisbundið til að reyna að grugga vatnið í hagsmunaskyni fyrir eigendur blaðsins. Og DV aldreifði lofsamlegum ritdómi um bók ritstjórans sem og opnuviðtali við hinn mikla foringja Sigmund Davíð, áður en hann féll af stalli.
Við gætum kosið að glotta bara í kampinn og hrista hasinn. En hitt kemur líka til greina að íhuga alvarlega hve ógeðfellt þetta er allt saman.
Það er mikilvægt að rýna í gegnum þokuna þegar orrustan um Ísland fer fram. Hún er ekki falleg. Hið siðferðislega verður fótum troðið, það sást vel í Mogganum um helgina.
Björn Þorláksson