Víst geta mýs flogið

Hvað getur maður sagt?

Átti ekki von á neinu, oft þegar maður fer á teiknimynd með barni í bíó eða á barnaleikrit - einkum í seinni tíð - nestar maður sig með æðruleysisbæninni og á jafnvel von á að tíminn líði bara ekki! En Í Pílu pínu, leikriti músa og manna, verður til orð sem ég nota nánast aldrei eftir upplifun í leikhúsi - það verður til snilld!

Hvers vegna? Það er góð spurning. Vel hefur tekist til við leikaraval. Leikmyndin er hein dásemd og brýtur blað í notkun þessa sviðs. Tónlistin og flutningur hennar nálægt fullkomnun. Samleikur góður og magnað jafnvægi gleði og alvöru, magnað sambland gríns og boðskaps. Einn kaflinn er sérstaklega skrifaður fyrir fullorðna, skarast ögn við allt hitt en er til afþreyingar fyrir þá sem fylgja börnunum. Kannski þurfti hann ekki, ekki skemmdi hann þó fyrir, alltaf gaman að sjá grín gert að Gísla Marteini! - en það verð ég að segja að hjarta mitt sló með barnshjörtunum í öllum atriðum sýningarinnar.

Rót snilldarinnar felst í textanum. Kjarni verksins er einfaldur. Það er flókið í dag að segja einfalda sögu, það verður flóknara með hverjum deginum sem líður. Í Pílu pínu halda aðstandendur uppfærslunnar sem frumsýnd var í Hofi á Akureyri 7.2. 2015 sig við  sammannleg fyrirbæri sem eru svo tær og skýr að athygli áhorfanda fer aldrei út af sporinu. Hvorki hjá fullorðnum né börnum ef marka  má forspá frumsýningar. Með mér í för var fimm ára barn sem sat geirneglt allan tímann. Það barn staðhæfir nú að Píla pína sé besta leikrit sem það hafi séð - \"besti dagur lífsi míns\".

Gleði, sorg, ógn. Þessu þrennu bregður fyrir strax á fyrstu mínútunum í þessari röð. Það tekur undravert skamman tíma að setja sviðið og allt til enda fylgjum við þessum þemum eftir - auk þess sem það er sérlega hressandi að dauðinn er ekki tabú í þessu verki. Leikritið er glænýtt en unnið upp úr sögu Herdísar Norðfjörð sem varð innblásin af kvæðum Kristjáns frá Djúpalæk. Sagan hefur verið staðfærð til nútímans og skírskotar til flóttamannaumræðu nú svo eitt sé nefnt. Pólitískur undirtónn verður þó aldrei of stríður og ekki er líklegt að sendimenn forsætisráðherra og fjármálaráðherra fari fram á afsökunarbeiðni líkt og eftir Skaupstundina okkar um áramótin! Fordómar fylgja því sem maður þekkir ekki. En þeir sem þora, óska og vilja nógu heitt hafa burði til að breyta heiminum. Gömul saga og ný, verðlaunin fyrir að bjarga einhverjum, jafnvel þótt hann sé allt öðruvísi, jafnvel þótt þér hafi verið kennt að óttast viðkomandi eins og heitann eldinn, verðlaunin geta orðið mikil, geta vísað út fyrir sig. Verðlaunin geta orðið að sá hinn sami og þú astoðar gæti bjargað þér sjálfum síðar og kannski veröldinni með. Og það að stíga fram í óttann getur eytt gamalli sorg úr manns - eða músarhjarta.

Ég segi ekki meir. Get ekki hugsað mér að draga neitt eitt nafn umfram annað úr þessum sigurhatti. Allur hópur sýningarinnar, jafnt innan sviðs sem utan, á lof skilið. Þið verðið bara að gúgla alla þá sem koma að verkinu til að þeir snjóti sannmælis. Þið verðið líka að sjá þessa sýningu. Ekki þarf barn til að skemmta sér þannig að eftir lifir.

Áhorfendur stóðu úr sætum og hylltu hópinn undir lok uppklapps. Sjaldan hef ég risið úr sæti með eins mikilli gleði.

Og á þeirri stundu vissi ég að mýs geta flogið og ég ætla að vona að ég gleymi því aldrei...

Björn Þorláksson