Vinstri græn eru klofin gagnvart sjálfstæðisflokki

Bjarni Benediktsson hefur ítrekað reynt að fá VG til liðs við sig við að mynda ríkisstjórn. Núna síðast bauð hann þeim að verða fjórði flokkurinn í stjórn hans með Viðreisn og BF.

Formaður VG hefur afþakkað vegna þess að þingflokkurinn er þverklofinn í afstöðu til samstarfs við Íhaldið.

Dagfari hefur heyrt að landsbyggðarþingmenn fyrir norðan vilja í stjórn með Sjálfstæðisflokknum til að geta staðið vörð með þeim um sérhagsmuni hinna ríku í sjávarútvegi og landbúnaði. Steingrímur J, Lilja Rafney, Bjarkey Olsen og varaþingmaðurinn Björn Valur sjá ekki sólina fyrir Íhaldinu og vilja umfram allt í eina sæng með þeim í samræmi við kröfur öflugra sægreifa í norðurkjördæmunum.

Þingmenn VG í þéttbýlinu vilja ekki samstarf við Íhaldið - telja það skýlaus svik við kjósendur sína.

Þá hefur Dagfari einnig heyrt að Ari Trausti Guðmundsson, nýr þingmaður VG í Suðurkjördæmi, telji það fásinnu að starfa með höfuðandstæðingnum.
Hann segist eiga annað erindi á Alþingi en að gerast handlangari Íhaldsins en hann var harður Maóisti sem ungur maður.

Dagfari telur að Vinstri græn séu ekki stjórntæk með hægri-og miðjuflokkum. Það hljóta menn að sjá.