Vill formann þótt vald sé viðbjóður!

Ókei, smá tilraun hérna til að útskýra svolítið í ljósi þessa rosalega drama sem hefur átt sér stað í dag.”

Þannig hefur Helgi Hrafn Gunnarsson færslu sína á Pírataspjallinu en þingmaðurinn birti skrif sín um miðnætti í gærkvöld.

Má segja að allan gærdaginn hafi vefurinn logað vegna deilna og meiningamunar sem að því er virðist byggir á persónum, persónupólitík og árekstrum ólíkrar hugmyndafræði, t.d. hvort allir séu burtséð frá stefnum og hugmyndafræði velkomnir inn í Píratapartýið.

Kornið sem fyllti mælin var það sem kölluð hefur verið “rætin” athugasemd Ernu Ýrar Öldudóttur formanns framkvæmdaráðs Pírata um Birgittu Jónsdóttur þingkonu. Það fór í taugarnar á Ernu Ýr að Birgitta skyldi iðulega kölluð formaður eða kapteinn án þess að vera það og hún skrifaði um það. Þar mun þó fremur fjölmiðlum um að kenna en Birgittu sjálfri, að fjölmiðlamenn velji Birgittu nafnbótina.

Birgitta varð mjög ósátt við skrifin. Helgi Hrafn skrifaði þá að sjálf hefði Birgitta rægt aðra og því skyti skökku við að hún upplifði sig sem fórnarlamb.

Þannig gekk boltinn út og suður í gær og. Meiri hiti en sést hefur. Einstaka stjórnmáladfræðingar fóru að rifja upp eina helstu ástæðu þess að öðrum flokkum en framsókn og íhaldinu hefur lítið gengið að ná vopnum sínum í áratuganna rás hér á landi, vegna illinda, persónudeilna og klofnings. Hitt má þó segja að Helga Hrafni hafi e.t.v. tekist að lægja öldur með færslunni í gærkvöld, hinar sömu öldur og hann átti nokkurn þátt í að koma af stað með ummælum sínum um Birgittu.

Helgi Hrafn segir þetta um þau ummæli sín að Birgitta sýni fórnarlambstilburði:

Ástæðan fyrir þessum orðum er ákveðið atvik sem átti sér stað í sambandi við ungan herramann sem heitir Ólafur Evert Úlfsson. Téður Ólafur kom til okkar frá Sjálfstæðisflokknum, rétt eins og að fjölmargir okkar meðlima koma úr einhverjum öðrum flokkum. Einn daginn rakst Birgitta á umræðu á frjálshyggjuvettvangi einhverjum á Facebook, brágst [svo] hin versta við og tilkynnti framboð sitt til þess að reyna að hindra að frjálshyggjumenn og Ólafur Evert tækju yfir Pírata. Það er fleira í þessari sögu en ég get farið yfir hérna, en alla tíð síðan þetta gerðist, hefur kraumað í mér bitur reiði yfir því hvernig Birgitta talaði um Ólaf Evert opinberlega í gríðarlegum aðstöðumun. Það fengu að flakka brigsl um óheildindi, misnotkun á kosningakerfi okkar (þ.e. með því að hvetja skoðanasystkin sín til þátttöku) og fleira í þeim dúr, en Ólafur Evert er svo gott sem óbreyttur meðlimur í okkar góðu hreyfingu og getur ekki varið sig þegar þingmaður vinsælasta stjórnmálaafls landsins talar svona um hann opinberlega. Hann er að vísu varamaður í stjórn Pírata í Reykjavík og hefur ekki framið hrottalegri myrkraverk í okkar flokki en að skrifa fundarsköp sem mér skilst að mikil sátt ríki um.”

Helgi Hrafn heldur áfram:

Þegar mig hefur langað að ræða þetta hef ég fundið þennan ótta, sem ég kannast við úr ofbeldissambandi, að geta ekki talað um það sem mér liggur á hjarta af ótta við að afleiðingarnar verði hreint út sagt hræðilegar. Ég er haldinn þessum ótta núna en mér finnst við verða að tala um þetta. Hvernig við tölum um hvort annað er ekki í lagi og við verðum að finna einhverja leið til þess að takast á við samskiptavandamál af þessum toga.

Mér þykir leitt ef þetta hefur þótt ómálefnalegt af mér, en ég get ekki látið eins og að það sé í lagi hvernig við einhvern veginn leyfðum umræðunni um Ólaf Evert að eiga sér stað. Mér finnst við þurfa að gera það upp.

Nú hef ég útskýrt hvað ég átti við með þessum ummælum. Mig langar að taka undir með þeim sem hafa hvatt til þess að við minnkum aðeins dramað til að tala um þetta málefnalega, en það verður ekki annað sagt að það eru undirliggjandi vandamál í okkar hreyfingu sem verður að tala um opinskátt og upphátt. Áhyggjur af því hvernig vald myndast hjá einstaka kjörnum fulltrúum eru lögmætar áhyggjur jafnvel ef þær hafa verið bornar upp hranalega eða ómálefnalega. Við þurfum að tala um það.”

Til að gera langa sögu stutta er niðurstaða Helga Hrafns að ekki gangi til lengdar að hafa engan formann skipaðan innan flokksins. Hann tekur þó fram að hann vilji ekki vera formaður. En eftir stendur spurningin: Er hugmynd Pírata um anarkí dauð?

Lokaorð Helga Hrafns eru þessi: “En vald er viðbjóður og við förum stundum illa með það, og við verðum að hafa einhverja virka ferla til að díla við það. Við getum ekki látið eins og að við séum valdalaus því við erum það ekki. Við höfum helling af valdi og það er eins gott að það séu til skýrir formlegir ferlar til þess að hafa hemil á því annars fer eins og nú hefur farið.”

(Samantekt Björn Þorláksson)