Við viljum ekki að ólafur ólafsson kaupi arion

Tilhugsunin um að hrægammasjóðir kaupi Arion-banka er óþolandi. Þeir eiga bankann reyndar óbeint í gegnum slitabú Kaupþings en ætlunin hefur ávalt verið sú að þegar slitabúið sleppti hendi af bankanum, gerðist það raunverulega en ekki þannig að helstu eigendur þess, hrægammasjóðirnir, kæmu upp á yfirborðið og gerðust beinir eigendur bankans.

Fyrir okkur Íslendinga er ekki viðunandi að sjóðir af þessu tagi eigi bankana okkar. Við getum ekki búið við það í okkar litla og viðkvæma samfélagi. Við getum heldur ekki búið við leyndarhyggju og svik af því tagi sem nú hefur verið upplýst um varðandi einkavæðingu Búnaðarbankans á sínum tíma þegar Ólafur Ólafsson og félagar notuðu alþjóðlegan lepp til að komast yfir bankann, þvert gegn yfirlýstum vilja stjórnvalda.

Þá gætu sjóðirnir sem vilja nú kaupa Arion hæglega verið leppar fyrir einhverja sem okkur langar ekki að sjá að nýju við stýrið á bankakerfi Íslendinga eins og var raunin á árunum fyrir hrun. Við höfum prófað að eiga allt undir vafasömum fjáraflamönnum eins og þá gerðist og við þurfum ekki að prófa það aftur.

Hrægammasjóðir gætu verið búnir að semja um að selja bankann áfram með viðunandi hagnaði fyrir sig. Við viljum ekki vakna upp við það að hinu megin við hornið bíði menn sem þjóðin vill ekki að eignist bankana að nýju. Okkur langar ekki að komast að raun um að einhverjir þeirra séu búnir að kaupa Arion-banka af hrægammasjóðunum einn góðan veðurdag þegar enginn á sér ills von. Þeir gætu þannig birtst okkur að nýju sem eigendur íslenskra banka, menn eins og Ólafur Ólafsson, Karl Wernersson, Sigurður Einarsson, Einar Sveinsson, Hreiðar Már eða Hannes Smárason.

Við hljótum að gera þá kröfu til  ríkisstjórnarinnar og alþingismanna úr stjórn og stjórnarandstöðu að þeir taki höndum saman um að stöðva fyrirhugaða sölu á Arion-banka með öllum tiltækum ráðum. Íslendingar þurfa ekki frekari tilraunarstarfsemi í þessum efnum. Þetta er fullreynt. Síðast endaðuðu tilraunir með bankahruni og ómældum hremmingum fyrir þjóðina í heild. Þegar við erum loks að jafna okkur eftir þau áföll, erum við ekki að fara að efna til nýrra áfalla af mannavöldum.

Fjármálaeftirlitið, ríkisstjórnin og Alþingi búa yfir ráðum sem duga til að stöðva sölu bankans til andlitslausra hrægammasjóða sem gætu svo gert hvað sem þeim sýndist við bankann. Vilji er allt sem þarf.