Erum marsbúar og munum græða á því!

Eitt mikilvægasta innleggið í náttúruvernd landsins kemur að utan þessa dagana með atbeina vísindanna. mbl.is segir frá því að kanadískur eldfjallasérfræðingur, Christopher Hamilton, telji miðhá­lendi Íslands einstaka hliðstæðu reiki­stjörn­unn­ar Mars hér á jörðinni. Hann hefur öðrum fremur rann­sak­að Mars með svokallaðri HiRise-mynda­vél­ sem ku einstætt töfratæki og borið saman við Ísland. Niðurstaðan er að mik­il­vægt sé að vernda miðhá­lendið okkar. Að verðmæti hins ósnortna og einstæða landslags okkar eigi aðeins eft­ir að aukast með tím­an­um og sennilega stóraukast.


Við íbúar þessa lands erum sumsé marsbúar og kannski kemur það ekki alveg á óvart! En fyrir þá sem ekkert skilja án þess að lögð sé efnahagsleg mælistika á öl fyrirbæri veraldarinnar leynist mikil ábatavon í þessari niðurstöðu. Má áætla að ferðaþjónusan sjái nú ný tækifæri í að kynna landið. Landið sem lítur út eins og Mars. Land marsbúanna. Og það þarf ekki geimfar til að komast til okkar! Bara venjulega flugvél eða skip. En fyrst þurfum við að stórefla innviðina til að bregðast við vaxandi fjölda ferðamanna.


Í gær varð umræða á Alþingi um orkustefnu. Þar birtist gamaldags sýn þeirra sem sjá ekki tækifærin í hinu ósnortna, sjá ekki tækifærin í ferðaþjónustunni þrátt fyrir alla peningana sem flæða inn í landið, einmitt vegna hinnar einstæðu náttúru okkar. Sjá ekki atkvæðin í því að vernda miðhálendið sem og aðra lítt raskaða náttúru landsins, hinar svokölluðu náttúruperlur sem eru miklu fleiri en við komum auga á í samtímanum. Tími er kominn til að nátttröllin á Alþingi vakni upp af dvalanum en þar er líka að finna margt gott fólk sem hefur veitt mikilvægt viðnám í herferð stóriðnaðarbrjálæðinganna.


Það er ekkert annað en andlegur sóðaskapur að vaða hér um og virkja allt sem hægt er að virkja í þágu mengandi iðnaðar, á kostnað almennings. Til að hygla stórfyrirtækjum sem borga ekki einu sinni skatt til landsmanna þótt þau mergsjúgi orkubú og eyðileggi tennur í hestum og sauðfé með mengun sinni. Okkar auðævi liggja í að efla ímynd hins hreina og ósnortna. Það sér hver heilvita maður sem ekki er um of tengdur ankannalegum hagsmunaöflum. Skammtímagræðgi og fáviska hefur ráðið för í orku- og virkjanastefnu landsmanna. Mál er að linni. Okkur öllum til lífsgæða og hagsbóta.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)