Rukkað fyrir krabbamein á lokastigi

Sem ég ligg uppi í sófa með 39 stiga hita, sviða í lungum, kvef og beinverki, vorkenni sjálfum mér eins og karlar með flensu stundum gera, rifjast það upp fyrir mér þegar ég tók sjónvarpsviðtal sl. haust við Fanneyju Ásbjörnsdóttur, leikskólakennara í Vestmannaeyjum.

Fanney beið eftir lífgjafarlyfjum frá ríkinu þegar við ræddum saman. Hún hafði þurft að höfða mál fyrir dómstólum, fékk ómennsk viðbrögð frá kerfinu við þeirri réttlætisbaráttu sinni að vilja lifa af. Hún sagði sjónvarpsáhorfendum að hún væri alla daga með flensueinkenni eftir að hafa smitast af lifrarbólgu. Það var ekki eins og Fanney hefði verið að leika áhættusaman leik þegar hún smitaðist af lifrarbólgu á sínum tíma. Hún fékk sýkt blóð á spítala eftir barnsburð. Heilbrigðiskerfið smitaði hana af lifrarbólgunni. Samt var dauðadómi kerfisins aðeins nýlega létt af henni eftir að til deilu kom hvort ríkið hefði efni á að greiða fyriir lífgjöf Fanneyjar. Fanney lýsti hvernig það væri að vera alltaf slöpp, að búa við ónýtar tennur, að vera alltaf með hita. Þegar mér varð hugsað til Fanneyjar skammaðist ég mín fyrir að leyfa mér að væla vegna kannski aðeins nokkurra daga flensu.

Ég skrunaði yfir nokkrar vefsíður í von um að hitinn lækkaði við það! Rak augun í frásögn íslenskrar konu á bleikt.is, konu sem greindist með krabbamein á lokastigi. Þessi kona heitir Ragnheiður, hún heldur úti bloggsíðu með hugrekkið að vopni. Síðan kallast www.black.feathers.is. Sorgarsaga. En saga Ragnheiðar vakti ekki bara sorg hjá mér heldur einnig nokkra reiði. Vegna þess að þegar íslenskur læknir greindi Ragnheiði frá að hún væri komin með krabbamein á lokastigi fyrir skemmstu, var henni í leiðinni gert að greiða rúmar 10.000 krónur fyrir fréttirnar. Og eins og konan segir sjálf: Það er svo ótrúlega margt rangt við það.

Sagan af Ragnheiði talar inn í undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar. Ríflega 75.000 manns hafa nú sagt hingað og ekki lengra. Sögur krabbameinssjúku konunnar og leikskólakennarans úr Vestmannaeyjum eru enda svo svartur blettur á okkar samfélagi að maður á ekki orð. Virðist þó aðeins um toppinn á ísjakanum að ræða.

Ragnheiður lýsir hvernig hún varð gripin miklum kvíða sem rekja mátti til efnahagsótta vegna veikindanna þegar hún fékk verstu fréttir í heimi.

Er ekki nóg að þurfa að þola fréttir eins og Ragnheiður fékk, fréttir sem varða líf okkar, framtíð, heilsu og dauða? Þarf líka að snúa hnífnum í sárinu? Hefur íslenska ríkið ekkert annað betra að gera en að svipta sjúka borgara fjárhagslegri reisn? Þegar síst skyldi.

Hvers konar nöðru er búið að fóstra við brjóst okkar?

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)