Verkalýðshreyfing í trölla höndum

   

Nú virðist sem farið sé aðeins að rofa í augun á einhverjum félagsmönnum í tveimur stórum verkalýðsfélögum, VR og Eflingu. Menn eru farnir að spyrja spurninga eins og: Á hvaða vegferð eru þessi félög?

Það er ekki skrítið að menn spyrji, því venjulegir félagar greiða stórar fjárhæðir til þeirra í hverjum mánuði og formenn félaganna – sem báðir eru nýkjörnir – ganga fram eins og félögin séu þeirra einkaeign.

 

En Eflingar- og VR félagar þurfa ekki að vera neitt hissa. Þessir formenn höfðu áður gengið fram með þessum hætti sem þeir gera, furðuyfirlýsingum í anda róttækra anarkista og marxlenínista, formaður VR að vísu talsvert lengur. Og nú – þegar þessir herskáu formenn virðast vera að hleypa öllu í bál og brand – ekki aðeins eigin félögum heldur líka heildarasamtökum launþega – virðist fólk loksins vera að vakna upp við þann vonda draum að hreyfing þess er komin í trölla hendur.

 

En – menn ættu ekki að vera hissa. Þetta er að öllu leyti þeim sjálfum að kenna. Þeir sváfu og tóku ekki þátt í formannskjöri félaga sinna. Á meðan starfaði vel skipulögð kosningamaskína og smalaði atkvæðum fyrir þessa formenn. Formaður Eflingar hefur játað opinberlega að einn helsti bakhjarl hennar hafi verið uppgjafakapítalistinn Gunnar Smári Egilsson, sem söðlaði um eftir nýjasta gjaldþrotið og gerðist sósíalisti og stofnaði Sósíalistaflokkinn.

 

Fjær glittir svo í aðra, sem eru minna þekktir á opinberum vettvangi en þeim mun betur í hinum þröngu og hörðu kreðsum róttækra anarkista. Við erum svo farin að sjá vel hvað fyrir þeim vakir með því að taka völdin í verkalýðshreyfingunni: Að valda sem mestri sundrungu, kljúfa og sprengja. Síðan ætla þeir að byggja upp aftur á eigin forsendum.

 

Spurningin er bara þessi: Þegar byltingin fer að éta börnin sín, hvað börn verða fyrst étin?

rtá