Nýja stjórnin nú þegar fallin?

Vísbendingar hafa komið fram um að hin \"nýja\" ríkisstjórn sé alvarlega löskuð nú jafnvel áður en nýr forsætisráðherra flytur stefnuræðu sína klukkan 10 í dag. Kunna dagar hennar að verða taldir á fingrum annarrar handar þegar upp verður staðið.

Kvarnast hefur úr stuðningi stjórnarflokkana við niðurstöðuna. Að minnsta kosti tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst sig ósammála því að ekki hafi verið boðið til kosninga strax, annar opinberlega. Þá segir Höskuldur Þórhallsson, Framsóknarflokki, að Sigmundur Davíð, sem margir telja enn hafa mikil völd innan stjórnarinnar, eigi að segja af sér þingmennsku vegna hneykslismála.

Inngrip Forseta Íslands í vikunni er umdeilt meðal landsmanna en líta verður til þess að fátt benti til að Sigmundur Davíð hefði stjórn á aðstæðum þegar forseti segist hafa synjað þingrofsbeiðni hans og hélt svo merkilegasta blaðamannafund sem ég hef setið á 30 ára fréttamannaferli.

Þingrofssvipan sem Sigmundur hótaði sjálfstæðismönnum í vikunni er ekki sama svipan nú og var þá - ekki þegar þingmenn flokksins stíga nú fram hver á fætur öðrum og lýsa sig ósammála niðurstöðunni.

Það skyldi þó aldrei fara svo að íslenskur almenningur fái þær réttlætisumbætur sem augljóst var að farið yrði fram á í kjölfar afhjúpunar Panamaskjalanna. Staða Bjarna Ben er fárveik. Ólöf Nordal er veik, þjóðin sendir henni bataóskir á erfiðum tíma. Aldrei hefur nýr forsætisráðherra haft veikara umboð til að leiða þjóðina en Sigurður Ingi, flokkur hans mælist með bjórfylgi og persónufylgi hans er í rúst eftir að hann varði nú síðast í svari á Alþingi í gær eignir ríkra Íslendinga í erlendum skattaskjólum.

Mikil tíðindi kunna að verða að óbreyttu þegar tillaga um vantraust verður tekið síðdegis í dag. Ef ekki dregur jafnvel til stórtíðinda fyrr.

Eins og Bjarni Benediktsson spurði fréttamann erlendrar stöðvar: \"Hvaðan hefurðu það að fólk vilji að ég segi af mér?\" Franski fréttamaðurinn svaraði: \"Ég hef það frá öllum hérna framan við þinghúsið, allir krefjast þess.\" Fátt varð þá um svör hjá fjármálaráðherra. Þá má benda á að 69% þjóðarinnar hafa í könnun 365 lýst vantrausti á Bjarna.

Þjóðin á betra skilið en að sitja uppi með umboðslausa og handónýta ríkisstjórn. Vitaskuld er hún ekki starfshæf, það kemur engri flokkspólitík við að staðhæfa um það, sérhvert sjáandi mannsbarn sér að sú er raunin - og þarf mikið að ganga út þegar leiðtogadýrkunin og attaníossaelementið innan gömlu valdaflokkanna lætur á sjá. Óbreyttir þingmenn meirihlutans stíga nú fram, hver á fætur öðrum, og lýsa sig ósátta við niðurstöðu tveggja fallinna foringja. Þeir vita það kannski sem við hin hin ekki vitum enn en munum sennilega bráðlega fá að sjá. Að stjórnin er fallin, áður en hún tekur til starfa.

Björn Þorláksson