Verður ragnheiður ríkharðsdóttir ráðherra?

Flest bendir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn verði aðili að næstu ríkisstjórn. Alls óvíst er með hverjum þeir mynda stjórn en engu að síður er hafin mikil umræða um það hverjir muni gegna ráðherraembættum af hálfu Sjálfstæðiflokksins. Margir kallaðir og fáir útvaldir eins og jafnan áður. Víst er að flestir þingmenn eru haldnir svokallaðri “ráðherraveiki” og eru tilbúnir að fórna flestu fyrir ráðherrastól, ráðherralaun, ráðherrabíl og ráðherrabílstjóra. Það fyrsta sem stjórnmálamenn fórna eru kosningaloforð og stefnumál, ef þurfa þykir.

Einungis þrír menn eru öruggir um ráðherrasæti hjá Sjálfstæðisflokknum. Formaðurinn sjálfur, Guðlaugur Þór og Kristján Júlíusson. Ólöf Nordal verður að sjálfsögðu ráðherra ef heilsan leyfir en hún hefur dvalið á sjúkrahúsi eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Flokkurinn verður að tefla fram konum til setu í ríkisstjórn. Þá vandast málið því ekki er um auðugan garð að gresja þegar kemur að þeim þætti. Helst er talað um að Unnur Brá Konráðsdóttir, sem skipaði 4. sæti flokksins í Suðurkjördæmi, komi til greina en hún er með nærri 8 ára þingreynslu að baki. Ekki verður séð að fleiri konur í þingflokki sjálfstæðismanna séu með næga reynslu eða burði til að gegna ráðherraembættum.

Bjarni Benediktsson hefur áður sótt hæfa konu út fyrir þingflokkinn til að gegna ráðherraembætti. Hann gæti endurtekið það. Í því sambandi hefur nafn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur verið nefnt en hún var að hætta á þingi eftir langan og farsælan feril þar sem hún endaði sem formaður þingflokksins. Ragnheiður nýtur virðingar og vinsælda og hefur reynslu og þekkingu til að gegna vandasömum ráðherraembættum. Hún hefur prýðilega stjórnunarreynslu sem skólastjóri og bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Ferill Ragnheiðar er þannig  að hún hefði alla burði til að geta orðið farsæll ráðherra.

Ef Bjarni sýndi þá yfirvegun að velja Ragnheiði, þá yrði það sterkur leikur. En fyrst þarf að koma starfhæfri ríkisstjórn saman, ekki satt?