Verður lilja fjórði verklausi menntamálaráðherrann?

Eitt af best varðveittu leyndarmálum stjórnmálanna á Íslandi frá Hruni er hve verklausir síðustu þrír menntamálaráðherrar Íslands hafa verið. Katrín Jakobsdóttir gegndi embættinu frá 2009 til 2013 að frádregnu fæðingarorlofi. Á kjörtímabili hennar gerðist nákvæmlega ekkert markvert í ráðuneytinu. Enginn hefur treyst sér til að halda því fram að Katrín hafi unnið einhver afrek sem menntamálaráðherra. Hins vegar hefur henni ekki verið velt upp úr því af einhverjum ástæðum.

Illugi Gunnarsson tók við af Katrínu vorið 2013 og sat sem ráðherra til ársloka 2016. Hann reyndi að setja mark sitt á Lánasjóð íslenskra námsmanna en kom engu fram. Í tíð Illuga var menntaskólanám stytt um eitt ár sem er mjög umdeilt. Annað gerði hann ekki.

Kristján Þór Júlíusson tók við af Illuga og sat í embætti frá janúar til loka nóvember 2017. Ekkert liggur eftir hann í menntamálaráðuneytinu. Nákvæmlega ekkert. Gárungarnir segja að hann hafi verið að lesa sér til og svo hafi ríkisstjórnin bara fallið!

Í nærri 9 ár hefur ekkert gerst í menntamálaráðuneytinu. Því hefur verið velt upp hvort myglusveppur hafi greinst á ráðherraskrifstofunni sem valdið hefur þessum doða eða hvort aðrar og jarðbundnari skýringar eru tiltækar.

Nú er Lilja Alfreðsdóttir tekin við og talar um “stórsókn” í menntamálum. Það gerðu hin þrjú einnig við upphaf ráðherraferils síns í menntamálaráðuneytinu þó útkoman hafi engin orðið.

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort Lilja verður fjórði verklausi menntamálaráðherrann í röð.

 

Rtá.