Verður illuga komið fyrir hjá nato?

Óstaðfestar fregnir herma að loksins sé búið að finna pólitískan samastað fyrir Illuga Gunnarsson sem lét af embætti menntamálaráðherra þann 10. janúar 2017. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur látið undan þeim þrýstingi formanns flokksins að fá Illuga embætti innan utanríkisþjónustunnar. Guðlaugur Þór hefur verið tregur til enda eru þeir Illugi engin vinir eða samherjar þó þeir hafi tilheyrt sama flokki í áratugi. Þeir hafa verið í andstæðum fylkingum innan flokksins. Guðlaugur Þór hefur nú öll tök á flokknum í Reykjavík og er m.a. talinn bera nokkra ábyrgð á þeim misheppnaða framboðslista sem stillt var upp vegna borgarstjórnarkosninganna. Það stafar ekki síst af því að hann lét hreinsa út af listanum alla þá sem tilheyrt hafa liði Illuga og áður Björns Bjarnasonar sem hafa verið andstæðingar hans en Guðlaugur Þór hefur gjörsigrað þá báða í valdabaráttu innan flokksins í höfuðborginni.

Sigurvegarar vilja kunna að vera stórir og það gera þeir með því að sýna sigruðum andstæðingum sínum miskunn. Það hefur utanríkisráðherra nú ákveðið að gera gagnvart Illuga.

Talsvert hefur verið reynt til að finna Illuga Gunnarssyni starf eða stöðu en án árangurs, bæði á vettvangi atvinnulífsins og víðar. Alla eftirspurn hefur skort eftir þessum fyrrverandi stjórnmálamanni. Hann hefur verið formaður Byggðastofnunar en það er hvorki mikið starf né mikilvægt. En nú virðist vera búið að finna honum samastað í skipbrotsmannaskýli fyrir fallna og fyrrverandi stjórnmálamenn, utanríkisþjónustunni.

Lítið hefur gengið að koma öðrum fyrrverandi ráðherrum flokksins fyrir. Ragnheiður Elín Árnadóttir varð að víkja úr stjórn Landsvirkjunar nú í vor en fékk í sárabætur sæti formanns hjá Fríhöfninni sem er dótturfélag Ísavía. Flokkurinn hefur hins vegar ekkert gert fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem virðist hafa horfið alveg úr opinberu lífi á Íslandi.

Já, það er kalt á toppnum. Og jafnvel ennþá kaldara við að falla niður í hyldýpi gleymskunnar.

 

Rtá.