Urðu strax að ákveða líffæragjöf

Valdimar Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Kjöríss, þurfti ásamt fjölskyldu að taka erfiða ákvörðun 18. apríl árið 1993 þegar Hafsteinn Kristinsson, forstjóri Kjöríss, fékk heilablæðingu og lést nokkru síðar.

Örskömmu eftir heilablæðinguna var falast eftir því við aðstandendur Hafsteins hvort fjölskyldan myndi samþykkja að Hafsteinn yrði fyrsti líffæragjafinn á Landspítalanum að honum látnum. Þurfti fjölskyldan að taka erfiða ákvörðun fyrir hans hönd en á þessum tíma lá ekki fyrir skriflegt samþykki íslenskra borgara hvort gefa mætti líffæri öðrum til bjargar. Fjölskyldan ákvað eftir samhljóða niðurstöðu á stuttum fundi að Hafsteinn hefði sjálfur viljað gefa sitt til samfélagsins . Líffæri voru send úr landi með flugvél og varð Hafsteinn því fyrsti líffæragjafinn hér á landi, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann hafði átt samneyti við fjölskylduna og gegnt störfum sem forstjóri Kjöríss. Eftir andlát Hafsteins þurfu systkinin, börn Hafsteins og Laufeyjar, að taka við skyldum fyrirtækjarekstrarins  þrátt fyrir ungan aldur.

Þetta og fleira ræddi Valdimar í umræðuþættinum Kvikunni í umsjá Björns Þorlákssonar á Hringbraut á mánudagskvöld, en þáttinn má sjá á vef stöðvarinnar ásamt öllu öðru efni hennar.

Samfélagsleg ábyrgð, ofurbónusar og græðgi í samtímanum eru einnig ofarlega á baugi í þættinum en Kjörís útdeilir ekki arði til eigenda félagsins heldur hugar að samfélaginu, innviðum og starfsfólki þegar vel gengur.

Þá kemur fram í þættinum að Kjörís brýtur í raun jafnréttislög með því að hafa of margar konur í stjórn fyrirtækisins og þarf því strangt til tekið að skipta út konu fyrir karl.

Kvikan verður endursýnd í dag og um helgina á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, en er sem fyrr segir einnig aðgengileg á vef stöðvarinnar.