Ungt fólk og konur vilja ekki eyþór og félaga

Miðaldra og eldri karlmenn eru uppistaðan í stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík samkvæmt stórri skoðanakönnun sem Morgunblaðið birti í gær. Konur vilja miklu síður styðja flokkinn en eldri karlar. Ungt fólk hefur mjög takmarkaðan áhuga á Sjálfstæðisflokknum en fram kom að einungis 16.3% þeirra sem eru á aldrinum 18-29 ára og svöruðu í könnuninni segjast styðja flokkinn.

Þetta eru ákaflega vondar fréttir fyrir flokkinn en þurfa þó ekki að koma á óvart. En hvað er til ráða?

Gárungarnir hafa varpað því fram að Sjálfstæðisflokkurinn eigi helst möguleika á að komast til áhrifa í Reykjavík geti hann beitt áhrifum sínum til að kosningaréttur kvenna verði afnuminn en konur fengu kosningarétt fyrir um hundrað árum. Flokkurinn getur þá haldið því fram að þetta hafi verið tilraun sem misheppnaðist!

Sömu gárungar tala um að Sjálfstæðisflokkurinn myndi njóta þess umfram aðra flokka að kosningaaldur yrði hækkaður úr 18 árum upp í til dæmis 30 ár!

Með breytingum af þessu tagi gætu miðaldra og gamlir sjálfstæðismenn farið að hafa þau áhrif sem um munar. Þannig væri ekki útilokað að flokkurinn gæti komist til einhverra áhrifa í Reykjavík að nýju.

 

Rtá.