Úkraínska kjúklingakjötið sagt frábært hráefni – Miklu ódýrara en það íslenska

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, ræddi úkraínska kjúklingakjötið sem nú fæst í verslunum hér á landi í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Hægt er að nálgast kjötið í Bónus á verði sem ekki hefur sést áður, að sögn Ólafs.

„Kílóverðið á kjúklingabringum, sem eru ekki vatnssprautaðar og eru að mati matreiðslumanna frábært hráefni, er 1.298 krónur - 24-32% lægra en á öðrum innfluttum bringum og 54-55% lægra en verðið á íslenzkum kjúklingabringum í sömu búð,“ segir Ólafur á Facebook-síðu sinni.

Ólafur segir að þetta litla dæmi sýni vel hvílík kjarabót það væri að fella niður tolla af alifugla- og svínakjöti.

„Tollfrelsi vara frá Úkraínu gildir fram í maílok. Að sjálfsögðu á Alþingi að framlengja það, af því að með því sláum við tvær flugur í einu höggi; lækkum matarverð og styðjum Úkraínu.“