Turninn að breytast í tjaldbúð

 

Á flokksstjórnarfundi Samfylkingar um helgina fór Árni Páll Árnason mikinn og gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega. ÁPÁ er formaður flokksins með eins atkvæðis mun.

Margir hafa lýst þeirri skoðun að það hafi verið framið einhvers konar flokkspólitískt hryðjuverk innan frá gegn flokknum þegar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingkona  bauð sig fram gegn Árna Páli ekki alls fyrir löngu. Munaði einu atkvæði hvort hallarbylting ætti sér stað. Síðan hafa samfó-istar ýmsir litið á Árna Pál sem þolanda, einhverra hluta vegna. Vekur upp spurningar um virkt lýðræði.

Árni Páll sagði um helgina að Samfylkingin gæti  alveg búið til flottari glansmyndir af sér, sem þó væri ekki málið. Betra væri að brjótast út úr viðjum. Alveg rétt hjá formanninum. En hvorri leiðinni fylgir hann sjálfur? Sá sem ræðir glansmyndir á sama tíma og hann segir:

„Flokkar verða ekki litlir við að missa fylgi heldur við að hætta að hugsa stórt,“ eins og ÁPÁ sagði í ræðu um helgina verður að gæta sín á orðskrúðinu. Er kannski stutt á milli retóríkur og glansmyndar?

Það var talað um turnana tvo þegar Samfylkingin mældist með yfir 30% fylgi og slagaði upp í stærð Sjálfstæðisflokksins. Turninn er samkvæmt skoðanakönnunum að breytast í tjaldbúðir. Spurning er hvar pólitískir flóttamenn muni halla höfði sínu, innan jafnaðarstefnu Samfó eða utan? Þar hefur formaðurinn nokkuð um framtíðina að segja...