Trylltir í athugasemdum – ósómi netsins

Hugtakið „virkir í athugasemdum“ er stundum notað til að gera lítið úr þeim sem gagnrýna ráðandi öfl í samfélaginu.

Með því er vísað til þeirra sem tjá sig um ýmis mál, oft án þess að hafa sérfræðikunnáttu.

Það varð um tíma töluvert mein hjá fjölmiðlum þessa lands að hliðverðir miðlanna, blaðamenn, hleyptu of fáum að gjallarhorninu nema viðkomandi væri a) stjórnmálamaður, b) hefði völd sem byggðu á auði eða c) væri sérfræðingur. Sér það hver heilvita maður að lýðræðinu er lítill greiði gerður með því að raddir elítunnar hangi einar í loftinu. Umræða hefur áhrif á skoðanir. Hvað verður um hagsmuni hins almenna manns ef rödd hand heyrist aldrei?

Á öllum tímum verður almenningur að fá að hafa rödd sem verður að fá að heyrast sem víðast. En orðum fylgir ábyrgð.  Kannski er ekki að undra að ekki hafi allir kunnað að fara með það sem kalla mætti valdeflingu almennings þegar netmiðlar opnuðu nýjar rásir þar sem almenningur gat sagt skoðun sína á hinu og þessu. Áður hafði bloggið orðið að veruleika. Kannski voru vinsælir bloggarar þó að jafnaði  sérfræðingar í hinu og þessu. Þegar kom að frjálsri tjáningu við fréttir skapaðist nýtt tækifæri. Fyrir alla. Og svo kom facebook.

Fólk póstar nú skoðununum sínum á félagsmiðlum ýmsum. Á sama tíma er víða hægt að skrifa athugasemdir við fréttir.  Því miður fer sú umræða iðulega úr böndunum. Það sem verra er: Ábyrgð fjölmiðla á athugasemdum fólks úti í bæ hefur ekki endilega hvatt fjórða valdið svokallaða til að leyfa röddum almennings að heyrast án stýringar. Að þurfa að vakta ummæli almennings jafnvel mestallan sólarhringinn kostar tíma og pening. Að geta ekki treyst fólki til að fara með þetta vald án þess að geti komið til meiðyrða og fjárútláta, án þess að sómasamlegrar tungu sé gætt, hefur fremur latt fréttamiðla internetsins til að leyfa skoðunum almennings að blómstra fremur en að hvetja þá. Það er vont fyrir lýðræðið. Lítill hópur - ekki virkra í athugasemdum heldur trylltra í athugasemdum - hefur í raun ógnað hinum nýfengnu gæðum, að almenningur hafi óritskoðaða rödd, fái það vægi sem almenningur á skilið. Flestallt fólk er skynsamt, upplýst og á að fá tækifæri til að tjá sig. Lítill hópur fólks hefur aftur á móti skemmt fyrir stórum hópi fólks með ýmsum tjáningarósóma á Internetinu. Við blaða- og fréttamenn höfum af napurri reynslu lært að líta á þetta sem vandamál.

Vegna ótta fjölmiðla við að hleypa almenningi óhindrað að umræðutorginu vegna þess sem fyrr er getið, er afar ánægjulegt að lesa nýjan dóm Mannréttindadómstóls Evrópu, þ.e. með hagsmuni lýðræðisins í huga. Fallinn er fordæmisgefandi úrskurður  um að net­fréttamiðlar beri ekki ábyrgð á „móðgandi og dóna­leg­um“ at­huga­semd­um les­enda eins og það er orðað. Ungverskur dómstóll hafði áður dæmt netmiðil ábyrgan vegna ummæla manns úti í bæ. Því snýr nú Mannréttindadómstólinn við.

Lára Hanna Einarsdóttir samfélagsrýnir var í ítarlegu sjónvarpsviðtali á Hringbraut í vikunni. Hún nýtir mátt orðsins til að halda uppi gagnrýni á það sem henni finnst vert að gagnrýna. Hún er sönnun þess að skrif geta verið beitt og markviss, skrif og birting gagna geta haft mikil áhrif, án þess að gagnrýnandinn kasti kílóum af drullu eins og stundum sést hjá „trylltum í athugasemdum“.

Besta reglan er að skrifa ekki annað en það sem maður treystir sér í návígi til að segja við þann sem maður gagnrýnir. Ef rökin eru engin – ef ofsinn einn keyrir gífuryrðin áfram – er kannski betra að hugsa sig aðeins betur um áður en „gagnrýni“ er sett fram í opinberu rými.

Gagnrýni er góð. En hún missir marks ef hún er ekki sett málefnalega fram. Gagnrýni getur jafnvel snúist upp í andhverfu sína – sem stundum eykur beinlínis lýðræðishallann – þegar tilgangur tjáningarinnar var að rétta hann við.

Lára Hanna kann listina að birta og setja saman hugmyndir og vitnisburð í samhengi, iðulega með þeim hætti að valdhöfum svíður undan. Samt er hún ekki ruddaleg, þarf ekki blótsyrði eða upphrópanir til að rödd hennar nái að heyrast. Lára Hanna passar sig einnig á að hjóla aldrei í lítilmagnann heldur veitir hún valdinu mest aðhald þar sem það er þykkast. Að slíku fólki er mikið lýðræðislegt gagn. Og hún vinnur sína tímafreku vinnu í sjálfboðavinnu. Af hugsjón einni. Almenningur elskar Láru Hönnu en valdhafar óttast hana. Það er ein besta einkunn sem hægt er að fá í samfélaginu árið 2016. Þar er framsetning tjáningarinnar algjör lykilþáttur.

(Þessi fjölmiðlarýni Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)