Donald trump er kominn til íslands

Rachel Maddow fréttakona í Bandaríkjunum hefur tekið saman merka vinnu sem afhjúpar orðfæri Donalds Trump, sem hugsanlegt er að verði næsti forseti Bandaríkjanna fyrir Repúblikana. Í tímaröð hefur hún klippt saman myndband sem sýnir að Trump tönnlast í kosningabaráttu sinni á sömu frösunum til að upphefja ofbeldi, skerpa skil aðgreiningar milli iðinna Bandaríkjanna og \"hinna\". Búa til spurn eftir hinum \"sterka leiðtoga\" sem reiðir sig á hnefarétt. Beint samhengi er samkvæmt samantektinni milli þeirra óeirða sem blossað hafa upp síðustu daga vegna boðaðra ræðuhalda Trump og þess sem hann hefur látið út úr sér. Það er stigmögnun í gangi þegar ummæli Trump eru skoðuð, crescendo eins og Rachel kallar það. Hann hefur fundið formúluna sem Hitler og fleiri ógæfusamir menn fundu. Að höfða til lægstu hvata, sú getur verið uppskriftin að völdum með hræðilegum afleiðingum fyrir heimsbyggðina.

Í hvert skipti sem hnefarétturinn nær að kæfa friðsöm mótmæli gegn heimskunni fitnar púkinn Trump á fjósbitanum. Skilaboð Trump eru. \"Ef þú vogar þér að mótmæla okkur opinberlega mun fara illa fyrir þér. Þá áttu ekkert skárra skilið en að vera barinn.\" Það er vægast sagt skuggalegt að heyra Trump segja að mann muni sjálfur borga tryggingarnar til að ná fólki út úr fangelsi og verja þá sem kannski muni berja mótmælendur aðeins of fast. Þannig talar \"hinn sterki leiðtogi\", sá sem vill láta fólk trúa því að hann sé kraftaverkamaður, sem muni láta verkin tala. Þar með batni hagur alþýðunnar.

Myndbandið sem vitnað er til að ofan fer nú eins og eldur í sinu um heiminn, enda er það sláandi. Út frá fjölmiðlafræði og blaðamennsku er áhugavert að fréttakonan kasti af sér hlutleysisbrynjunni með vinnu sinni. Henni er augljóslega nóg boðið, hún óttast  endalokin, hún telur að sér beri sem sérfræðingi í greiningu upplýsinga að aðhafast.  Vinna Rachelar er því byr í segl þeirra sem telja að fréttamaður megi aldrei vera hlutlaus, því þar með dragi hann taum ráðandi afla, enda háðastur slíkum \"sorsum\". Blaðamenn eiga aðeins að hafa trúnað við almenning og almannahagsmuni. Að hafa ruglið óbreytt eftir vondu valdi og án þess að andæfa því getur tryggt afkomu blaðamanna, en aðeins hinna undirgefnu, þá fá þeir áframhaldandi aðgang að valdinu. Á sama tíma eru milljarðar skynsamra borgara í heiminum, en því miður nafnlausir og ósýnilegir. Enginn talar við þá. Afleiðingin getur orðið firring, ranghugyndir pöpulsins um eigin veröld. Þeir fréttamenn sem líta á sig bara sem svarta kassa í flugstjórnarklefum sem beri aðeins að miðla beint og án gagnrýninnar hugsunar því sem Trump er að segja gætu því ómeðvitað flýtt fyrir endalokum alheimsins ef við bregðumst ekki við eins of Rachel. Ögurstund gæti verið uppi.

Við hneykslumst á Trump, við erum hissa og hrædd vegna fylgis hans. En við tökum kannski kannski ekki eftir því að Trump er löngu kominn til Íslands. A.m.k. eru allnokkrir holdgervingar hans akkúrat þessa stundina  að undirbúa þingræður eða skrifa statusa á facebook þar sem tilgangurinn er að kljúfa Ísland í tvo hópa, \"okkur og hina\". Þessir hinir eru til dæmis hælisleitendur sem sumir telja að liggi nú vel við höggi. Þessir hinir eru ýmsir hópar sem búa utan landsteinanna og eru notaðir sem óvinur til að kynda undir þjóðrembu innanlands. Þessir hinir eru stundum þeir Íslendingar sem ekki láta sér duga að falla í steypt form undirgefni og blinds stuðnings við ráðandi öfl. Sem dæmi um atlögur gegn fjálsum hópum sem krafsa þó stundum með klaufunum í svörðinn í mótmælaskyni eru listamenn, Óþarft er að rifja upp ummæli sem sumir skoðanaleiðtogar hérlendis hafa látið falla um þá.

Nokkur hluti þjóðarinnar trúir því augljóslega á sterka leiðtoga. Sú trú getur orðið svo blind að jafnvel þótt sterki leiðtoginn sé að líkindum fárveikur loka áhangendur augunum fyrir því.

Það má aldrei taka samkenndina úr veröldinni. Með því væru opnaðar dyr að frumstæðri einstaklings- og hefndarhyggju. Hún tekur ekki tillit til þess að við fáum ólikar vöggugjafir í fangið, sumir alast upp við ömurleg lífsskilyrði, eru ekki færir um að breyta örlögum sínum. Þá má ekki dæma án skilnings, okkar ber að hugsa um okkar minnstu bræður og systur og reyna að koma þeim á lapppir. Sýna aðstæðum þeirra samúð. Hvergi er það auðveldara en einmitt hér á landi að opna faðminn fyrir fólki að utan, því hér vantar fleira fólk.

Þeir sem trúa að maðurinn sé réttsýn, iðin og góð vera ef allt er í lagi, munu áfram leita leiða til að laða það besta fram úr mannskepnunni. Hinir sem vilja koma því sem þeir kalla aumingja og afætur fyrir í poka, henda þeim í sjóinn og drekkja þeim eins og kettlingum, eru í eigin persónulífi staddir á afleitum stað. Pössum okkur á að láta þá ekki hrífa almenning með sér í þann voðastraum.

Ferst heimurinn ef Trump kemst til valda? Hugsanlega, en þvert á móti kann að vera að réttsýnt og gott fólk fái nú nýjan samstöðumátt til að gera heiminn enn betri. Sú samstaða gæti risið úr skilningi á því að okkur stafar öllum ógn af Donald Trump og  klónunum hans sem hér hafa veist að \"pólitískri rétthugsun\" og \"góða fólkinu\" svo aðeins tvö dæmi séu nefnd.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)