Tíu framboð í reykjavík munu gera stöðuna ruglingslega

Margt bendir til þess að við borgarstjórnarkosningar í vor gætu framboð í Reykjavík orðið allt upp í tíu talsins.

 

Fari svo má gera ráð fyrir því að talsvert af atkvæðum “detti dauð” í þeim skilningi að einhver framboð munu ekki koma fulltrúa að og því fleiri listar sem koma fram, þeim mun meiri dreifing atkvæða eins og gefur að skilja.

 

Líkleg framboð eru eins og staðan er núna: Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn, VG, Píratar, Miðflokkur sem ætla má að fái kjörna borgarfulltrúa og svo að auki Björt framtíð, Framsóknarflokkur, Sósíalistaflokkur Íslands og jafnvel eitt eða tvö framboð í viðbót sem ólíklegt er að nái að fá mann kjörinn að þessu sinni.

 

Lítum á mögulega niðurstöðu kosninganna sem gæti t.d. orðið eitthvað á þessa leið:

 

Samfylking 28% atkvæða og 7 borgarfulltrúar, Sjálfstæðisflokkur 23% og 6 borgarfulltrúar, Viðreisn 12% og 3 bogarfulltrúar, VG 11% og 3 borgarfulltrúar, Píratar 10% og 2 borgarfulltrúar, Miðflokkur 9% og 2 borgarfulltrúar. Alls 23 borgarfulltrúar. Framsókn 3%, Björt framtíð 2%, Sósíalistaflokkur 1% og aðrir samtals 1%. Enginn þeirra fengi mann kjörinn.

 

Yrði þetta niðurstaða kosninganna, mætti gera ráð fyrir því að Dagur B. Eggertsson sæti áfram sem borgarstjóri með stuðningi tveggja flokka sem gætu verið Viðreisn, Píratar eða VG.

 

En er líklegt að niðurstaðan gæti orðið þessi?

 

Staða Samfylkingar í borginni er býsna sterk. Dagur borgarstjóri er og hefur verið yfirburðamaður í borgarpólitíkinni og hann er með öflugan lista á bak við sig samkvæmt niðurstöðu prófkjörs. Þó flokkur hans gæti tapað einhverju fylgi frá síðustu  kosningum, er alveg óhætt að gera ráð fyrir góðri niðurstöðu og að Samfylkingin undir hans forystu verði með mest a fylgið.

 

Það hlýtur að teljast frekar óheppilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að Vigdís Hauksdóttir skuli leiða lista Miðflokksins í Reykjavík. Hún mun sækja fylgi beint til Sjálfstæðisflokksins enda eru grunnskoðanir hennar og flokksins svipaðar um margt. Hún mun trúlega einnig gera vonir Framsóknar um að koma að manni að engu. Sjálfstæðisflokkurinn á eftir að sýna framboðslista sinn sem verið er að smíða þessa dagana. Kjartani Magnússyni og Áslaugu Friðriksdóttur var algerlega hafnað í leiðtogaprófkjörinu en þau munu samt vilja vera í framboði og tryggja sér áframhaldandi setu í borgarstjórn. Innan kjörnefndarinnar eru skiptar skoðanir um framtíð þeirra. Ekki er vitað hver verður niðurstaðan varðandi þau. Kjörnefndin hefur leitað logandi ljósi að þekktu fólki til að skreyta listann en það hefur ekki gengið vel. Flokkurinn þarf að tefla fram þekktum einstaklingum eins og íþróttahetjum, fjölmiðlamönnum eða kunnum áltisgjöfum. En hermt er að illa hafi gengið að finna slíkt fólk. Takist ekki að finna öfluga einstaklinga til að taka sæti ofarlega á listanum, má ætla að róðurinn fyrir Eyþór og félaga verði þungur.

 

Mikill hugur er sagður vera í Viðreisnarfólki í Reykjavík sem stefnir að því að fá þrjá menn kjörna í borgarstjórn. Pawel hefur ítrekað verið orðaður við listann auk nokkurra annara frambærielgta frambjóðenda. Það hlýtur að skýrast næstu daga hverjir koma til með að leiða lista Viðreisnar í Reykjavík. Nái Viðreisn 12% fylgi í Reykjavík væri það mikill sigur og alls ekkert ólíklegt að það takist með öflugum lista.

 

Vinstri græn, Píratar og Miðflokkur gætu verið á svipuðu róli í kringum 10% hver flokkur. Einhverjum kann að þykja það mikið fylgi á bak við Vigdísi Hauksdóttur sveitarstúlkuna úr Flóanum. En hún virðist alltaf hafa lag á að vekja á sér athygli og komast í fjölmiðla sem getur ráðið úrslitum svo fremi að hún fari ekki alveg yfir strikið eins og stundum hefur hent hana.

 

Það stefnir í ein tíu framboð í Reykjavík á vori komanda. Það mun einungis gera kosningabaráttuna flóknari, ruglingslegri og jafnvel enn meira spennandi en ella.

 

Rtá.