Tilfinningaklám við komu flóttamanna

Fyrir nokku birtist frétt þar sem haft var eftir íslenskum presti í Noregi að ólíkt hefðust Norðmenn og Íslendingar að. Íslenski presturinn var nýfluttur í 8.000 manna smábæ, Brønnøysund. Í síðustu viku tók þessi bær við 90 erlendum flóttamönnum. Prestinum fannst merkilegt að setja þann fjölda í samhengi við þann fjölda flóttamanna sem íslenska þjóðin tekur á móti.

\"Ég veit bara að við getum gert miklu betur hvað fjölda flóttamanna varðar, það má þakka fyrir þennan hóp sem við erum búin að taka á móti en þegar við skoðum það í samhengi við að þessi litli bær og fleiri álíka stórir hér í kring eru búnir að taka á móti margföldum þeim fjölda sem Ísland hefur tekið á móti þá er ekki tilefni til að klappa sér á bakið og hrósa sér fyrir að hafa gert mjög vel eða betur en aðrir,“ sagði íslenski presturinn í fréttinni.

Hann benti einnig á að Noregur væri í efnahagslægð. Norska krónan fjórðungi lægri en fyrir ári. „En þeir leggja samt gífurlega fjármuni í móttöku flóttafólks.“

Þessi frétt vakti litla athygli, mig grunar að við höfum ekki viljað lesa hana. Því skömmu áður hafði einhver minnst á heimsmet hvað okkur varðaði í móttökunni en það fannst okkur gott að lesa.

Í fyrradag var svo „stóri“ dagurinn hér. Örfáir tugir flóttamanna komu til landsins. Fréttaflutningi af viðburðinum fylgdi eitthvað sem mætti kalla klámvæðingu tilfinninga. Hver fjölmiðillinn á fætur öðrum birti myndir sem færa mætti þó rök fyrir að hverfðust um einkalíf óopinbers hóps á erfiðri stundu. Lítil sofandi börn voru  myndbirt sofandi. Kannski í einhverjum tilfellum án leyfis frá foreldrum. Skil fréttagildi myndanna vel, sem blaðamaður sjálfur, en ef ég væri íslenskur flóttmaður, nýfluttur til Sýrlands og vissi lítið un menningu Sýrlendinga og fyrstu kynni mín af þeim væru að allir helstu fjölmiðlar landsins væru að berja sér á brjóst og birta myndir af mér og börnunum mínum sofandi  út um allt undir fyrirsögnum gleði og léttis að ég væri kominn til Sýrlands myndi ég eflaust eki hreyfa neinum sérstökum mótbárum, myndi ekki kunna við það.

Það er ekki óeðlilegt að spyrja spurninga um þetta fár og þessar „freimingar“, ekki síst í ljósi samanburðarins við Noreg.

Einnig má nefna fyrri umfjöllun nokkurra fjölmiðla þar sem koman var undirbúin,  umfjöllun á persónumlegum og tilfinningalegum nótum. Líkt og að við Íslendingar teldum okkur vera orðna  alheimsfrelsara í mannkynssögunni.

Fjölmiðlar á landinu vinna afrek flesta daga miðað við aðstæður en var gærdagurinn mómentið þar sem við blaðamenn spiluðum inn á að göfga landann, göfga okkur sjálf á kostnað gesta okkar? Fátt var haft annað eftir fólki en hve þakklátt það væri og glatt að vera komið til okkar. Samt hættu sumar fjölskyldur við að koma. Sérfræðingar ræða áföllin og sorgina sem hljóti að vera í hjarta gestanna eftir hræðilega reynslu.

Má nota orðið sveitó yfir áherslurnar? Er við að eiga sjálflægni þjóðar, fylgifisk einangrunar og skorts á því að við getum enn talist veraldarvön? Er sofandi sýrlenskt barn orðið tákn um gæsku og sjálfsgöfgi einangraðrar þjóðar?

Má setja það í samhengi við að fyrr á tímum sendi Ísland flóttafólk til baka út í opinn dauðann af því að Ísland átti bara að vera fyrir Íslendinga? Er það enn talið nánast yfirnáttúruleg óeigingirni að við tökumst á við alþjóðaskuldbindingar og leyfum öðrum að njóta þess að við erum rík?

Eitt að lokum: Væri e.t.v. ráð að sýna flóttafólkinu virðingu og athygli á þeirra forsendum – ekki bara „okkar“?

(Þessi fjölmiðlarýni Björns Þorlákssonnar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)