Fólkið sem fellur fyrir eigin hendi

 

Það sem er gott við kvikmyndina Reykjavík er að hún er ólík öllum öðrum íslenskum bíómyndum sem gerðar hafa verið til þessa. Ekki gerólík, en það eru engir stælar í Reykjavík. Djassumgjörð tónlistarinnar í henni fannst mér reyndar ögn tilgerðarleg en ég skil tilvísunina. Allt hitt fannst mér trúverðugt og gott í þessari mynd. Takk fyrir mig. Mér leið vel eftir að hafa horft á Reykjavík.

Samspil hamingju og óhamingju er m.a. til umfjöllunar í Reykjavík. Lífið er flókin skepna  sem ekki verður tamin svo auðveldlega. Lífið er það sem maður gerir og hugsar. Það eru til líf sem eru minni en önnur. Sá sem hefur ekki samanburð við stærri líf gerir sér sjaldnast grein fyrir smæð eigin lífs. En sá sem hefur lifað stórt og átt sér mikla drauma, fellur niður og puðast jafnvel áratugum saman í persónulegri krísu, hlýtur að kynnast óhamingjunni nema vera skertur eða siðblindur. 

Þeir sem fá nesti með hröðum og fallegum heilum, þeir sem búa yfir sérstökum hæfileikum lenda oft í meiri hættu en aðrir. Nokkrir vina minna hafa fallið fyrir eigin hendi vegna þess að þeir gátu ekki parað saman eigin hæfileika og næmi við alla harðneskjuna þarna úti. Hinir föllnu vinir mínir voru undantekningarlítið næmir, greindir og viðkvæmir. Margir gætu vottað það.

Sameiginlega áttum við vinirnir tilvistarspurningar sem lutu að ást, öryggi, frelsi, sáttmálum, skuldbindingum og togstreitu anda og efnis. Kannski réð tilviljun hver lifði af og hver ekki. Í Reykjavík er varpað fram þeirri hugmynd að þeir sem séu næmir fyrir lífinu standi jafnvel á hápunkti hamingjunnar um 18 ára aldur. Þá upphefjist krísa þar sem vonir og væntingar hljóti að bera skarðan hlut í rimmunni við veruleikann. Um fimmtugt nái menn vopnum sínum á ný og sættist svo við sjálfa sig, glaðir jafnvel fram í andlátið!

Þetta snerti streng í mínu hjarta. Kannski vegna þess að þrítugsaldurinn var langerfiðasta æviskeiðið sem ég upplifði. Fer ekki nánar út í það hér en þetta æviskeið var þrautaganga. Fertugsaldurinn var á köflum þungur líka. En þegar hún skall á mér hálfa öldin hafði ég fundið blöndu jafnvægis og frelsis. Margir jafnaldra minna segja svipað um sjálfa sig.

Lærdómurinn að lokinni hálfri öld er kannski sá að það séu ekki aðstæðurnar sem ráða hamingju eða óhamingju okkar heldur hvernig við bregðumst við þeim. En það getur tekið tíma að læra það.

Þess vegna ber okkur að bjóða fram aðstoð okkar, að fyrra bragði þegar við sjáum fólk sem lendir í vanda. Það tekur ekki nema fimm sekúndur að falla fyrir eigin hendi. Um það þekki ég sorgleg dæmi.

Björn Þorláksson